Knattspyrnudómarinn Lee Mason hefur verið settur til hliðar í ensku úrvalsdeildinni um næstu helgi eftir afdrífarík mistök í síðustu umferð.
Mason var myndbandsdómari á leik Arsenal og Brentford um síðustu helgi. Hann gleymdi að teikna línu sem hefði gert jöfnunarmark Brentford í leiknum ógilt. Þar með kostaði hann Skytturnar að öllum líkindum sigurinn.
John Brooks snýr hins vegar aftur eftir að hafa verið settur til hliðar í leik Liverpool og Everton í gær, sem og leik Arsenal og Manchester City á morgun. Hann átti að vera myndbandsdómari í leikjunum.
Brooks gerði sig sekan um slæm mistök í leik Crystal Palace og Brighton um síðustu helgi. Mistök hans kostuðu Brighton mark í leiknum, en honum lauk með jafntefli.
Brooks verður fjórði dómari á leik Aston Villa og Arsenal um næstu helgi.