Atvinnukylfingurinn Jon Rahm, þriðji efsti maður PGA-heimslistans í golfi átti vart orð yfir frammistöðu fyrrum atvinnumannsins í knattspyrnu, Gareth Bale á golfvellinum er þeir spiluðu saman níu holur á dögunum. Jon lét hafa það eftir sér að það væri ekki sanngjarnt að Bale væri bæði framúrskarandi í knattspyrnu og golfi á sama tíma.
Bale og Jon eru báðir á meðal keppenda á AT&T Pebble Beach Pro-Am mótinu sem fer fram dagana 2. febrúar – 5. febrúar næstkomandi. Á mótinu spila atvinnukylfingar og þekktir áhugakylfingar í golfi saman.
Gareth Bale, sem á yfir glæstum knattspyrnuferli að skipa, ákvað á dögunum að láta gott heita og leggja knattspyrnuskóna á hilluna. Bale þykir afar frambærilegur kylfingur á ætlar hann að helga golfi meira af tíma sínum í framtíðinni.
Sem áður sagði spilaði hann níu holur með Jon Rahm á dögunum og sá síðarnefndi var hrifinn af því sem hann sá hjá Bale.
„Ég sagði við hann að hann gæti ekki verið svona góður í knattspyrnu og golfi á sama tíma, það er ekki sanngjarnt,“ sagði Jon í samtali við spænska miðilinn Marca og vissi greinilega ekki á þeim tíma að Bale hefði lagt knattspyrnuskóna á hilluna.
„Þú getur ekki helgað þig einni grein á borð við knattspyrnu en samt verið með svona mikla hæfileika í golfi, það er bara ekki sanngjarnt. Hann ætlar sér að leggja knattspyrnuskóna á hilluna bráðum og elskar golf. Hann vill spila meira og vonandi munum við sjá hann oftar á Pro-Am mótunum í framtíðinni.“
Bale þyrfti ekki nein heilræði þegar kemur að golfi.
„Hann spurði ekki um nein ráð og þarf þess heldur ekki, hann er alveg nægilega góður fyrir.“