Hinn 29 ára gamli John Cofie mætti í dómsal í gær til þess að svara fyrir ásökun um nauðgun ásamt meintum samverkamanni sínum Nathan Stuart árið 2019.
Greint er frá málinu á vef The Sun þar sem Cofie er sagður hafa verið undrabarn hjá Manchester United á sínum tíma. Hann var yngsti knattspyrnumaðurinn á þeim tíma til þess að skrifa undir samning við félag að virði einnar milljónar punda, þá aðeins 14 ára gamall.
Á þeim tíma var Sir Alex Ferguson knattspyrnustjóri félagsins en svo fór að Cofie náði aldrei að spila fyrir aðallið Manchester United.
Hann yfirgaf Manchester United að lokum árið 2013 og lagði síðan knattspyrnuskóna á hilluna fyrir tveimur árum síðan. Samkvæmt frétt The Sun er hann enn góður vinur fyrrum liðsfélaga sinna Paul Pogba og Jesse Lingard.
Cofie neitar ásökunum um nauðgun en málið er nú tekið fyrir í dómsal.