Frakkland og Marokkó mætast í seinni undanúrslitaleik Heimsmeistaramótsins í Katar í kvöld. Fyrrnefnda liðið er talið mun sigurstranglegra.
Liðið sem sigrar mætir Argentínu í úrslitaleiknum á sunnudag. Það varð ljóst eftir að Lionel Messi og félagar unnu þægilegan 3-0 sigur á Króatíu í gærkvöldi.
Samkvæmt stuðlum Lengjunnar eru allar líkur á að Frakkar verði andstæðingar Argentínumanna í úrslitaleiknum.
Stuðullinn á að Frakkland sigri Marokkó í venjulegum leiktíma í kvöld er aðeins 1,48. Stuðullinn á að Marokkó sigri í venjulegum leiktíma er hins vegar 5,78.
Loks er stuðullinn á jafntefli eftir venjulegan leiktíma 3,44.
Þó svo að líkurnar séu ekki með þeim hafa Marokkóar gert ótrúlega hluti á HM til þessa. Þeir hafa unnið lið á borð við Spán og Portúgal á leið sinni í undanúrslitin.
Leikur Frakklands og Marokkó hefst klukkan 19 í kvöld að íslenskum tíma.