Arsenal er í vandræðum þessa stundina eftir meiðsli Gabriel Jesus.
Brasilíumaðurinn verður frá í um þrjá mánuði eftir aðgerð sem hann þurfti að fara í í kjölfar meiðsla sem hann varð fyrir á Heimsmeistaramótinu í Katar.
Arsenal er á toppi ensku úrvalsdeildarinnar nú þegar hlé er vegna HM, með fimm stiga forskot á Manchester City.
Til að halda í við toppinn gæti félagið þó þurft að finna sér framherja.
Calciomercato á Ítalíu segir að Arsenal íhugi að endurvekja áhuga sinn á Dusan Vlahovic, framherja Juventus.
Skytturnar höfðu gífurlegan áhuga á serbneska framherjanum fyrir ári síðan. Þá var hann á mála hjá Fiorentina.
Juventus vann hins vegar kapphlaupið en nú gæti Arsenal reynt að fá hann aftur.