Manchester United hefur sett sig í samband við umboðsmann Cody Gakpo, ef marka má heimildir enska götublaðsins The Sun.
Gakpo var sterklega orðaður við Rauðu djöflanna í sumar en að lokum var landi hans Antony fenginn á Old Trafford frá Ajax.
Nú vill United hins vegar klófesta Gakpo.
Þessa stundina er hinn 23 ára gamli Gakpo staddur á Heimsmeistaramótinu í Katar með hollenska landsliðinu. Hann skoraði í öllum leikjum liðsins í riðlakeppninni og heillaði mikið.
Sóknarmaðurinn er á mála hjá PSV í heimalandinu en líklegt er að hann fari þaðan fljótlega. United hefur helst verið nefnt sem hugsanlegur áfangastaður kappans.
Tölfræði Gakpo í hollensku úrvalsdeildinni er hreint ótrúleg. Hann hefur skorað níu mörk og lagt upp tólf í fjórtán leikjum.