Vanda Sigurgeirsdóttir formaður KSÍ segir frá því á vef KSÍ að hún hafi á dögunum fundað með Aleksander Čeferin forseta Evrópska knattspyrnusambandisns.
UEFA var með fundi á dögunum þar sem Vanda spjallaði við Ceferin um stöðu kvenna í stjórnum knattspyrnusambanda og félaga.
„Ég hef unnið að þessu viðfangsefni mánuðum saman og ræddi málið við forseta UEFA í apríl á þessu ári. Ég tók þetta einnig upp á fundi Norðurlandanna í ágúst og fékk fullan stuðning við að taka málið áfram á vettvangi UEFA. Við erum stolt af þeim árangri sem við höfum náð hjá KSÍ þar sem 47% nefndarmanna eru konur, og svo má líka geta þess að hlutfall kvenna á meðal þingfulltrúa á ársþingum okkar hefur vaxið stöðugt síðustu ár og aldrei hafa fleiri konur setið þingið en í febrúar á þessu ári, fyrir það ber að hrósa aðildarfélögum KSÍ,“ segir Vanda á vef KSÍ.
Í framhaldi af umfjöllun um málið á fyrrgreindum fundi UEFA og aðildarlandanna var ákveðið að stofna starfshóp og strax lýstu nokkur aðildarlönd UEFA víðsvegar úr Evrópu yfir áhuga á að fá sæti í hópnum, m.a. Portúgal, sem mætti einmitt Íslandi í umspili um sæti á HM kvenna 2023 nýlega. Hópurinn hefur nú þegar verið skipaður.
„Það er einlæg von okkar hjá KSÍ og mörgum öðrum knattspyrnusamböndum að þessi vinna verði til þess að konum fjölgi í nefndum og stjórn UEFA. Raddir kvenna þurfa að heyrast þar sem ákvarðanir eru teknar og það er mín upplifun að það sé einnig vilji UEFA.”