David Alaba, leikmaður Real Madrid, er alls ekki hissa að Robert Lewandowski hafi byrjað á magnaðan hátt hjá Barcelona.
Um er að ræða tvo fyrrum liðsfélaga sem eru nú ‘óvinir’ í spænsku deildinni en þeir voru saman hjá Bayern Munchen.
Lewandowski hefur lengi verið talinn einn besti framherji heims og raðaði inn mörkum fyrir bæði Bayern og Borussia Dortmund.
Pólverjinn hefur svo sannarlega staðist pressuna á Spáni og er markahæsti leikmaður deildarinnar.
,,Þetta kemur mér ekkert á óvart með Lewy. Ég þekki hann mjög vel eftir tímann saman í Munchen. Það sem hann er að gera á Spáni er það sem ég upplifði í mörg ár í Þýskalandi,“ sagði Alaba.
,,Hann er einn besti framherji heims og hefur sýnt það margoft í gegnum tíðina og enn þann dag í dag.“