Aston Villa mun hafna öllum tilboðum frá Manchester United í markvörð sinn Emiliano Martinez. Þetta kemur fram í frétt Football Insider.
Á dögunum fóru af stað sögusagnir þess efnis að United hefði áhuga á Martinez.
Framtíð David De Gea hjá United er í mikilli óvissu, en samningur hans við félagið rennur út næsta sumar.
Villa metur Martinez á um 45 milljónir punda. Það verður að teljast ólíklegt að United reiði þá upphæð fram í janúarglugganum.
Það sem styrkir stöðu Villa frekar er að samningur Martinez við félagið rennur ekki út fyrr en árið 2027. Hann skrifaði undir nýjan samning í janúar á þessu ári.
Martinez hefur verið á mála hjá Villa síðan 2020. Hann kom frá Arsenal.