Miðjumaðurinn Alex Þór Hauksson var í byrjunarliði Öster er liðið fékk Halmstad í heimsókn í sænsku b-deildinni í kvöld.
Joseph Baffo kom gestunum í forystu með marki úr vítaspyrnu á 22. mínútu en Jesper Westermark jafnaði metin fjórtán mínútum síðar og staðan 1-1 í leikhléi.
Gestirnir tóku aftur forystuna á 65. mínútu þegar Villiam Dahlström skoraði og tvö mörk frá Mikael Bohman og Alexander Johansson á lokakafla leiksins tryggðu gestunum sigurinn, lokatölur 4-1 fyrir Halmstad.
Halmstad situr á toppnum með 19 stig eftir átta leiki. Öster fer niður í 8. sæti með tapinu í kvöld en liðið er með 13 stig.
Alex Þór fór af velli þegar fjórar mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma.