Lúðvík Jónasson fyrrum leikmaður Stjörnunnar var gestur Dr. Football hlaðvarpsins í dag þar sem farið var ítarlega yfir leik Breiðabliks og Stjörnunnar í Bestu deildinni í gær.
Breiðablik vann 3-2 sigur á Stjörnunni í Kópavogi í gær en Lúðvík sem er ekki þekktur fyrir að liggja á skoðunum sínum hafði þetta að segja.
„Við áttum að fá stig í gær, græna liðið var eins og grasafræðingar þarna en fatta ekki að það er gervigras í Smáranum. Lágu og töfðu tímann, dómarinn var andlega fjarverandi. Ég bara spyr hvaða blöðruselur var að dæma þarna?,“ sagði Lúðvík um Jóhann Ingi Jónsson dómara leiksins.
Hjörvar Hafliðason stjórnandi þáttarins taldi að Jóhann hefði dæmt vel en Lúðvík var ekki á sama máli. „Þú sérð bara með grænum augum, hann dæmdi þetta illa,“ sagði Lúðvík.
Anton Ari Einarsson markvörður Blika taldi á sér brotið í fyrsta marki Stjörnunnar sem kom beint úr aukaspyrnu. Á myndbandi sést að Anton hafði lítið til síns mál. „Það er al mesti væl og aulagangur sem sést hefur hjá einum markverði, það þarf ekki að hrósa dómaranum fyrir það.“
Lúðvík telur að Anton Ari sé veikasti hlekkur Blika og hefur sömu sögu að segja um Harald Björnsson markvörð Stjörnunnar.
„Tveir veikustu hlekkirnir í báðum liðum eru markverðirnir, Halli er 20-30 kílóum of þungur. Hann á 1-2 mörk í hverjum leik, hann átti að taka tvö mörk á móti Víking og eitt í gær. Hann er fyrirliði liðsins og á að sýna fordæmi, hann á að vera í toppstandi.“
Lárus Guðmundsson knattspyrnugoðsögn var einnig í þættinum og var sammála um standið á Halla. „Halli rífðu þig í gangi,“ sagði Lárus sem er í framboði fyrir Miðflokkinn í Garðabæ.