Barcelona komst nær því að tryggja sér annað sætið í spænsku úrvalsdeildinni með sigri á Celta Vigo í kvöld.
Memphis Depay kom Börsungum yfir eftir hálftíma leik eftir sendingu frá Ousmane Dembele og Pierre-Emerick Aubameyang bætti við öðru marki heimamanna rúmlega tíu mínútum síðar.
Aubameyang var aftur á ferðinni á 48. mínútu þegar hann stýrði boltanum í netið eftir aðra stoðsendingu frá Dembele. Iago Aspas minnkaði muninn fyrir Celta Vigo tveimur mínútum síðar en Jeison Murillo gerði út um vonir gestanna á endurkomu þegar hann var rekinn af velli eftir tæpan klukkutíma leik.
Börsungar sigldu sigrinum í höfn og lokatölur 3-1 fyrir heimamenn. Börsungar sitja í öðru sæti deildarinnar með 72 stig eftir 36 leiki, sjö stigum á undan Sevilla sem á leik til góða, eins og Atletico Madrid en síðarnefnda liðið er átta stigum á eftir Barcelona.
Barcelona 3 – 1 Celta Vigo
1-0 Memphis Depay (’30)
2-0 Pierre-Emerick Aubameyang (’41)
3-0 Pierre-Emerick Aubameyang (’48)
3-1 Iago Aspas (’50)