Christian Eriksen var í landsliðshópi Dana í kvöld þegar liðið mætti Hollendingum í vináttuleik.
Þetta var í fyrsta sinn sem Eriksen tók þátt í landsliðsverkefni frá því hann fór í hjartastopp í leik Danmerkur og Finnlands á EM í fyrrasumar. Eriksen, sem leikur með Brentford í ensku úrvalsdeildinni, byrjaði leikinn á bekknum.
Steven Bergwijn kom Hollendingum yfir á 16. mínútu. Jannik Vestergaard jafnaði fyrir Dani fjórum mínútum síðar en Nathan Ake kom Hollandi í 2-1 eftir tæpan hálftíma leik. Memphis Depay skoraði þriðja mark Hollands úr vítaspyrnu á 37. mínútu og staðan 3-1 þegar flautað var til loka fyrri hálfleiks.
CHRISTIAN ERIKSEN SCORES TWO MINUTES INTO HIS RETURN TO INTERNATIONAL FOOTBALL!!! pic.twitter.com/BztWOVLGqM
— ESPN FC (@ESPNFC) March 26, 2022
Eriksen kom inn af bekknum í hálfleiknum og skoraði með sinni fyrstu snertingu eftir vel útfærða sókn Dana. Eriksen klíndi boltanum í fjærhornið eftir sendingu frá Andreas Skov Olsen.
Danir spiluðu vel í upphafi síðari hálfleiks en það voru Hollendingar sem jóku forystu sína þegar Steven Berwijn kom sínum mönnum í 4-2 á 71. mínútu. Eriksen var nálægt því að bæta við öðru marki sínu stuttu síðar en skot hans hafnaði í stönginni. Lokatölur 4-2 sigur Hollendinga.