Helgi Sigurðsson þjálfari ÍBVsegir að Eyjamenn hrofi fram veginn eftir málið sem kom upp í síðustu viku. Gary Martin var þá rekinn frá ÍBV. Ástæða þess var myndefni sem enski framherjinn tók í búningsklefa liðsins. Umrætt myndefni var tekið í búningsklefa ÍBV eftir að liðið vann sigur á Reyni Sandgerði í Mjólkurbikarnum. Samkvæmt heimildum tók enski framherjinn myndefni upp í gegnum Snapchat þar sem leikmenn ÍBV voru að fagna og sást þar einn liðsfélagi hans nakinn. Deildi hann myndefninu í kjölfarið í lokuðum hóp leikmanna ÍBV.
„Það er náttúrulega eitthvað sem maður vill vera án, það er engin launung. Það mál er bara búið núna og núna er bara horft fram á við,“ sagði Helgi í samtali við Fótbolta.net í dag um málið.
Málið vakti gríðarlega athygli en leikmaðurinn sem myndaður var án leyfis hefur lagt fram kæru á hendur enska framherjanum.
„Auðvitað var þetta leiðindarmál, fyrir félagið, leikmennina og alla sem komu að því. En núna er bara horft fram á við, en ekki baksýnisspegilinn. Við sjáum til þess að allt svona þétti hópinn enn frekar saman, og ég á ekki von á neinu öðru en að það gerist.“
Því hefur verið velt upp hvort málið hefði ekki mátta leysa á skrifstofu félagsins. „Ég hef enga stjórn á því. Þú verður að ræða það við aðra. Ég er bara þjálfari liðsins,“ sagði Helgi við fréttaritara Fótbolta.net.
Gary var ekki lengi atvinnulaus því nokkrum dögum eftir að ÍBV rak hann af Eyjunni samdi hann við Selfoss.