Jose Mourinho stjóri Tottenham er ekki sáttur með pilluna frá Ole Gunnar Solskjær stjóra Manchester United í garð Heung Min Son í gær. Tottenham tók á móti Manchester United í ensku úrvalsdeildinni í gælr. Leiknum lauk með 3-1 sigri Manchester United en leikið var á heimavelli Tottenham í Lundúnum.
Á 33. mínútu kom Edinson Cavani, Manchester United yfir með marki eftir stoðsendingu frá Paul Pogba. Markið var hins vegar skoðað í VAR og þar var komist að þeirri niðurstöðu að Scott McTominay, miðjumaður Manchester United, hafði brotið af sér í uppbyggingu sóknarinnar þegar að hann slæmdi hendinni í andlit Heung Min Son, sóknarmann Tottenham. Markið var því ekki tekið gilt og aukaspyrna dæmd.
Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United var ekki sáttur með athæfi Son og vill meina að hann hafi gert of mikið úr högginu. „Ef þetta væri sonur minn og hann lægi eftir í jörðinni og félagar hans þurfa að hjálpa honum upp, myndi hann ekki fá að borða, þetta er það vandræðalegt,“ sagði Solskjær í viðtali eftir leik.
Mourinho svaraði fyrir þetta. „Ég sagði Ole þetta, því ég hitti hann fyrir nokkrum mínútum. Hver yrðu viðbrögðin ef ég hefði sagt þetta, að ég ætlaði ekki að gefa syni mínum að borða,“ sagði Mourinho.
„Ég verð bara að segja að Sonny er heppinn að faðir hans er betri en Solskjær. Faðir, ég sem faðir þá verð ég alltaf að gefa börnunum mínum að borða. Sama hvernig þau haga sér.“
„Ef þú þaft að stela til að gefa börnunum að borða, þá gerir þú það.“