fbpx
Þriðjudagur 11.maí 2021
433Sport

Lokakaflinn framundan í stóru deildunum – Spenna á toppnum á Spáni og hörku Meistaradeildarbarátta á Englandi

Helgi Sigurðsson
Laugardaginn 10. apríl 2021 10:00

Tekst Lingard að hjálpa West Ham að enda í efstu fjórum? GettyImages

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Nú er sá tími árs genginn í garð að spennan í stærstu deildum Evrópu er farin að aukast eða línur teknar að skýrast á sumum vígstöðum. Spennan er ýmist mest á toppi, botni eða í baráttunni um Evrópusætin. Hér er samantekt yfir stöðuna í allra stærstu deildum Evrópu fyrir lokakaflann.

England

Á Englandi virðist fátt geta komið í veg fyrir að Manchester City standi uppi sem sigurvegari í ensku úrvalsdeildinni í fimmta sinn á innan við tíu árum. Þeir eru með 14 stiga forystu á toppi deildarinnar þegar sjö leikir eru eftir. Nágrannarnir í Manchester United eru í öðru sæti. Þeir eru í mjög þægilegri stöðu hvað varðar að ná Meistaradeildarsæti en ná City hins vegar að öllum líkindum ekki.

Meistaradeildarbaráttan er einmitt þar sem mesta spennan er á Englandi fyrir lokakaflann. Leicester er í sterkri stöðu í þriðja sæti með 56 stig. Síðustu þrír leikir þeirra á tímabilinu verða gegn Man Utd, Chelsea og Tottenham. Það er því mikilvægt fyrir þá að koma sér í góða stöðu fyrir allra síðustu leikina í vor. West Ham, Chelsea, Tottenham, Liverpool og Everton koma í sætunum á eftir með litlu millibili stigalega séð. Hamrarnir eru með 52 stig, stigi á undan Chelsea. Tottenham og Liverpool eru svo bæði með 49 stig. Everton er með 47 stig en verða þó að teljast með í baráttunni þar sem þeir eiga leik til góða, gegn Aston Villa. Liverpool á líklega þægilegustu leikjadagskránna eftir af ofantöldum liðum og eiga því enn fínan séns á að komast ágætlega frá þessu tímabili, þrátt fyrir slæmt útlit á tímapuntki. Þá eiga þónokkrar innbyrðisviðureignir eftir að eiga sér stað á milli liðanna. Margt getur breyst á stuttum tíma.

Í baráttunni um Evrópudeildarsæti sem og sæti í nýjustu Evrópukeppninni, UEFA Conference League, má aftur nefna þau lið sem eru í Meistaradeildarbaráttunni þar sem pakkinn er þéttur á þessum slóðum. Það er líklegt að fimmta og sjötta sæti muni gefa Evrópudeildarsæti og það sjöunda sæti í nýju keppninni. Aston Villa gæti blandað sér í baráttu um Evrópusæti með því að vinna leikinn sem þeir eiga inni. Aftur á móti eiga þeir mjög krefjandi leikjadagskrá framundan. Arsenal og Leeds geta blandað sér í baráttuna en þá þarf margt að ganga upp. Skytturnar eiga töluvert þægilegri leiki framundan, á pappír.

Það styttist í að fall Sheffield United úr deild þeirra bestu verði staðfest. West Brom fer líklega með þeim niður eins og staðan er í dag. Fulham á enn von en þeir eru 3 stigum frá Newcastle, sem er í síðasta örugga sætinu. Þá eru þeir 6 stigum frá Brighton og 7 frá Burnley. Öll þessi lið eiga eftir að leika einum leik meira en Fulham sem á einnig eftir að mæta Arsenal, Chelsea og Man Utd á útivelli. Þeir verða því að teljast líklegastir til að fylgja Sheffield Utd og WBA í næstefstu deild.

Spánn

Atletico Madrid hefur misstigið sig undanfarið og hefur það heldur betur hleypt spennu í toppbaráttuna í LaLiga. Þeir hafa nú aðeins 1 stigs forystu á Barcelona og 3 stig á nágranna sína í Real Madrid þegar níu umferðir eru eftir. Góðu fréttirnar fyrir Atleti eru þó þær að Barca og Real mætast í kvöld og tapar annað liðið því, augljóslega, stigum. Þá má einnig færa rök fyrir því að þeir eigi bestu leikjadagskránna það sem eftir lifir tímabils. Einnig má geta þess að keppinautar Atleti eru báðir enn í öðrum keppnum, Real í Meistaradeildinni og Barca í bikarnum heima fyrir. Á meðan geta þeir fyrstnefndu einbeitt sér að deildinni. Það er þó ekki hægt að horfa framhjá því að þeir hafa verið að hiksta undanfarið og þurfa að sýna meiri stöðugleika. Barca og Atletico mætast í 35.umferð í leik sem gæti verið þýðingarmikill fyrir toppbaráttuna.

Meistaradeildarbaráttan gæti klárlega verið meira spennandi en þar er Sevilla í fjórða og síðasta Meistaradeildarsætinu með 12 stiga forskot á Real Sociedad í því fimmta. Fyrir ofan eru auðvitað liðin sem nefnd voru í toppbaráttunni.

Í baráttunni um sæti í Evrópudeild og UEFA Conference League eru áðurnefndir Sociedad ásamt Real Betis og Villareal öll með 46 stig í fimmta til sjöunda sæti. Ef Barcelona vinnur úrslitaleik spænska konungsbikarsins gegn Athletic Bilbao munu öll þessi sæti gefa þátttökurétt í Evrópukeppni, tvö í Evrópudeild og eitt í Conference League. Ef að Bilbao vinnur aftur á móti þá mun sjöunda sætið ekki gefa neitt.

Fallbaráttan er hörkuspennandi. Aðeins 4 stig skilja að Valladolid í 16.sæti og Alaves í 20.sæti. Elche eru svo stigi á eftir Valladolid og eru Huesca 2 stigum þar á eftir. Eibar eru svo í 19.sæti, með jafnmörg stig og Alaves. Ekki má svo útiloka að Getafe og Osasuna sogist ofan í pakkann. Þau eru 6 til 7 stigum fyrir ofan fallsvæðið.

Ítalía

Inter er að hlaupa með titilinn á Ítalíu en þeir hafa 11 stiga forskot á granna sína í AC Milan þegar níu umferðir eru óleiknar. Það stefnir því í að Juventus mistakist að vinna Serie A í fyrsta sinn í tíu ár. Þeir eru stigi á eftir Milan.

Baráttan um Meistaradeildarsætið er töluvert meira spennandi þar sem Milan, Juventus, Atalanta, Napoli og Lazio eru öll í baráttunni. Roma á einnig séns en eru þó 7 stigum frá fjórða og síðasta Meistaradeildarsætinu. Milan hefur 60 stig, Juve 59, Atalanta 58, Napoli 56 og Lazio 52. Síðastnefnda liðið á leik til góða. Öll liðin í þessum pakka eiga leiki innbyrðis, Milan, Juve og Atalanta þar af þrjá. Fyrirfram lítur leikjadagskrá Napoli best út.

Baráttan um hin Evrópusætin er í rauninni lítið spennandi. Roma hreppir að öllum líkindum eitt þeirra þar sem þeir eru í verstu stöðunni hvað Meistaradeildarsæti varðar. Í hin tvö sætin munu þau tvö lið sem missa af Meistaradeildarsæti (úr pakkanum sem nefndur var áðan) fara.

Crotone er svo gott sem fallið með 15 stig. Parma hefur 5 stigum meira en er í slæmum málum samt sem áður, 4 stigum frá Torino sem er í síðasta örugga sætinu. Cagliari hefur 2 stigum meira en Parma. Torino á leik til góða.

Þýskaland

Bayern Munchen virðist ætla að sigra Bundesliguna enn eitt árið. Þeir unnu gífurlega mikilvægan sigur á Leipzig í síðustu umferð og er nú með 7 stiga forskot þegar sjö umferðir eru eftir.

Þá eru Leipzig, með 57 stig og Wolfsburg, með 54, nánast örugg með sitt sæti í Meistaradeildinni að ári. Frankfurt fylgir þeim líklega þangað en þeir náðu 7 stiga forskoti á Dortmund, sem er í fimmta sæti, með gríðarlega mikilvægum sigri á heimavelli þeirra gulu og svörtu í síðustu umferð.

Dortmund verður að teljast líklegt til að hreppa Evrópudeildarsæti, sem eru þó vonbrigði þar á bæ. Leverkusen, sem er með jafnmörg stig og Dortmund eins og er gætu fylgt þeim þangað. Bæði fimmta og sjötta sæti munu gefa sæti í Evrópudeildinni ef að lið sem endar ofar en það vinnur bikarinn.

Schalke er svo gott sem fallið. Þeir eru með 10 stig eftir 27 umferðir, hreint skammarlegt. Arminia Bielefeld og Köln eru fyrir ofan þá með 23 stig. 16.sæti, þar sem Köln er nú vegna þess að þeir hafa betri markatölu en Arminia, veitir umspilseinvígi þar sem spilað er við liðið í þriðja sæti í deildinni fyrir neðan. Fyrir ofan þessi lið eru svo Hertha Berlin og Mainz með 25 stig. Hertha á eftir að mæta Mainz, Arminia og Köln. Þá á Mainz svakalega erfiða leikjadagskrá á lokasprettinum.

Frakkland

Baráttan við toppinn í Ligue 1 er hörkuspennandi. Lille er á toppnum með 66 stig en PSG, með 63 stig, Monaco, með 62 stig og Lyon með 61 stig eiga öll möguleika þegar sjö umferðir eru eftir. PSG eiga mjög viðráðanlega leikjadagskrá á lokakaflanum og gætu því vel tekið titilinn í enn eitt skiptið. Leikur Monaco og Lyon er eina innbyrðisviðureign innan þessarar spennandi toppbaráttu.

Efstu þrjú sætin gefa þátttökurétt í Meistaradeildina svo það gefur auga leið að sömu lið eru í baráttunni þar en 12 stig eru frá Lyon, í fjórða sæti, niður í Lens í því fimmta.

4 stig skilja Lens og Montpellier, í áttunda sæti, að. Þar á milli eru Marseille og Rennes. Eins og staðan er í dag lítur út fyrir að þessi lið berjist um sæti í Conference League.

Dijon er á botninum með aðeins 15 stig og nánast fallið. Þar fyrir ofan er hörð barátta á milli Lorient, í 17.sæti með 32 stig, Nimes, í sætinu fyrir neðan með 29 stig og Nantes, í 19.sæti með 28 stig. Liðið í 17.sæti heldur sér í deildinni, þeir sem enda í 18.sæti fara í umspil upp á að bjarga sér frá falli og liðið í 19.sæti fellur með Dijon.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 9 klukkutímum

Kjartan Henry riftir í Danmörku og er á leið til Íslands

Kjartan Henry riftir í Danmörku og er á leið til Íslands
433Sport
Fyrir 10 klukkutímum

United vill ganga frá kaupum á Sancho á allra næstu vikum

United vill ganga frá kaupum á Sancho á allra næstu vikum
433Sport
Fyrir 22 klukkutímum

Verður afrek Rooney að engu?

Verður afrek Rooney að engu?
433Sport
Fyrir 22 klukkutímum

Óli Kristjáns rekinn frá Esbjerg

Óli Kristjáns rekinn frá Esbjerg
433Sport
Í gær

Ísak Bergmann og Ari sýna liðsfélaga sínum stuðning á fallegan hátt

Ísak Bergmann og Ari sýna liðsfélaga sínum stuðning á fallegan hátt
433Sport
Í gær

Spá því að svona endi enska úrvalsdeildin – Grátleg niðurstaða fyrir Liverpool

Spá því að svona endi enska úrvalsdeildin – Grátleg niðurstaða fyrir Liverpool