Flestir eru á einu máli um að Mohamed Salah sé í dag besti knattspyrnumaður í heimi. Þessi magnaði leikmaður er í ótrúlegu formi með Liverpool.
Salah skoraði þrennu gegn Manchester United um helgina en hann á aðeins 18 mánuði eftir af samningi sínum við félagið.
Sala þénar í dag 200 þúsund pund á viku en það telst ekkert sérstaklega mikið fyrir mann í hans gæðaflokki að taka 35 milljónir heim í viku hverri.
Fjallað er um launakröfur Salah í nýjum slúðurpakka BBC þar sem sagt er að Salah vilji fá 500 þúsund pund á viku. Ljóst er að PSG og fleiri félög væru til í að borga honum slíka upphæð.
Salah vill því hækka úr 35 milljónum króna á viku í það að þéna tæpar 90 milljónir króna á viku, ef marka má fréttirnar.
Takist Liverpool ekki að semja við Salah fyrir sumarið er ljóst að félagið gæti neyðst til að selja hann. Annars væri félagið í hættu á að missa Salah frítt árið eftir.