Joey Barton, knattspyrnustjóri Bristol Rovers, hefur fengið á sig mikla gagnrýni eftir orð sem hann lét falla eftir 3-1 tap Bristol Rovers gegn Newport á dögunum. Barton líkti frammistöðu síns liðs við helförina og hefur í kjölfarði verið hvattur til þess að íhuga stöðu sína sem knattspyrnustjóri.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Barton kemur sér á forsíður blaðanna í Bretlandi en hann er þekktur vandræðagemsi eftir knattspyrnuferil sinn. Þessi líking Bartons hefur vakið hörð viðbrögð, Helen Hyde, trúnaðarmaður miðstöðvar og safns um helförina segir orð Bartons bera vott um þekkingarleysi.
,,Ég held að herra Barton viti ekki hvað orðið þýði og hann er greinilega ekki meðvitaður um það hversu mikla sorg og móðgun hann hefur orsakað hjá mörgum. Ég hvet hann til þess að afla sér þekkingar um þessa hörmulega atburði,“ sagði Helen Hyde, í samtali við BBC.
Forráðamenn Bristol Rovers hafa ekki tekið þetta atvik fyrir á fundi hjá sér og neita að tjá sig um það að svo stöddu.
Helförin var skipulagt fjöldamorð Nasista, undir stjórn Adolfs Hitlers, í seinni heimstyrjöldinni. Alls voru í kringum sex milljónir gyðinga drepnir. Markmið fjöldamorðanna var að útrýma gyðingum.