The Sun birtir í dag myndir af forsíðum blaðanna á Spáni en þar segir meðal annars að um sé að ræða endalok gullaldar Barcelona-liðsins. Orð eins og niðurlæging og vandræðalegt eru í stórum stöfum á forsíðunum en Barcelona hafði ekki tapað með 6 marka mun síðan árið 1951.
Eitt tímaritið gaf 9 leikmönnum Barcelona 0 í einkunn. Lionel Messi, sem hefur verið kjörinn besti leikmaður heims sex sinnum, var einn af þeim sem fékk þessa einkunn. Þá eru stuðningsmenn Barcelona handvissir um að Messi muni biðja um að fá að fara frá liðinu eftir leikinn í gær.
Messi er samningsbundinn félaginu fram á næsta ár en undanfarið hafa orðrómar sprottið upp um að hann vilji fara frá félaginu. Sagt hefur verið að hann sé ekki sáttur með stjórn félagsins og ljóst er að ef það verða ekki stefnubreytingar þá gæti hann farið frá félaginu.