Newcastle hefur samið við 23 ára framherja sem heitir Florent Indalecio sem fáir knattspyrnuáhugamenn þekkja. Kannski góð ástæða fyrir því enda lék Indalecio í fjórðu deild í Ástralíu á síðustu leiktíð og vann við að leggja múrsteina.
Það sem vekur kannski mesta athygli er að Indalecio er besti vinur Allan Saint-Maximin sem er stjarna Newcastle og besti maður liðsins.
Indalecio kom á reynslu til Newcastle í sumar þegar hann var að heimsækja Saint-Maximin og hefur nú fengið samning. „Við höfum tekið áhættu og sjáum hvernig þetta fer í ár,“ sagði Steve Bruce stjóri Newcastle.
„Hann kom með Allan til reynslu í sumar, hann hefur æft með varaliðinu síðustu sex vikur. Hann hefur eitthvað.“
Hann var í unglingastarfi St-Etienne en var sparkað út þegar hann var 15 ára gamall vegna þess að hann hagaði sér illa.
„Hvort hann verði nógu góður til að spila fyrir Newcastle, við sjáum hvernig þetta þróast. Við gefum honum tækifæri.“
Bruce segir að ekki sé rétt að Indalecio hafi fengið samning vegna vináttu sinnar við Saint-Maximin. „Það hjálpar að Allan er vinur hans en ekki misskilja mig, hann fær ekki bara samning vegna vináttu sinnar við Allan. Hann er með smá hæfileika, annar væri hann ekki að koma hér inni.“
Hann skoraði huggulegt mark á reynslunni í sumar eins og sjá má hér að neðan.