Ríkisstjórn Bretlands hafnaði því að hjálpa börnum sem búa við fátækt að fá fríar máltíðir á meðan vetrarfrí er í skólum þar í landi. Um er að ræða börn sem treysta á máltíðir í skólanum til að komast af, foreldrar þeirra hafa lítið á milli handanna og er þetta þeirra von um að komast í gegnum daginn án þess að upplifa svengd.
Marcus Rashford sóknarmaður enska landsliðsins hefur barist við yfirvöld í Bretlandi um að gefa börnum að borða sem búa við fátækt. Rashford hefur látið í sér heyra um að börn sem fá máltíðir í skólum verði einnig að fá að borða þegar frí er í skólum. Rashford hefur því tekið málin í sínar hendur og hefur fengið veitingastaði út um allt Bretland til að bjóða upp á fríar máltíðir fyrir börn sem lifa við fátækt.
Liverpool hefur ákveðið að stíga einnig inn í þessa baráttu og hefur félagið lagt til 200 þúsund pund svo að börn í borginni fái að borða á næstu dögum.
Um er að ræða 36 milljónir sem Liverpool north food bank fær í sínar hendur til að tryggja að öll börn í nágrenninu fái að borða þegar fríið er í gangi.