Það verður talsvert fundað í höfuðstöðvum Knattspyrnusambands Íslands í dag um það hvort halda eigi leik áfram á Íslandsmótunum í fótbolta eða blása mótin af.
Samkvæmt heimildum 433.is mun mótanefnd KSÍ funda fyrri part dags og síðdegis kemur stjórn KSÍ saman og fer yfir stöðu mála út frá nýjum sóttvarnarreglum og þeim hugmyndum sem mótanefnd leggur fram. Búast má við að sambandið gefi eitthvað út um framtíð fótboltans síðdegis.
ÆFingar á höfuðborgarsvæðinu hafa verið bannaðar síðustu daga en ef túlka má nýjar reglur verður hægt að æfa með takmörkunum. „Íþrótta og heilsuræktarstarfsemi: Heimilt er með skilyrðum að standa fyrir og stunda íþrótta- og heilsuræktarstarfsemi ef um er að ræða skipulagða hóptíma þar sem allir þátttakendur eru skráðir. Við þessar aðstæður er skylt að virða 2 metra regluna, þátttakendur mega ekki skiptast á búnaði meðan á tíma stendur og allur búnaður skal sótthreinsaður á milli tíma. Sameiginleg notkun á búnaði sem er gólf- loft- eða veggfastur, s.s. á heilsuræktarstöðvum, er óheimil,“ segir í nýjum reglum sem gilda til 3 nóvember.
Í reglugerð sem KSÍ gerði vegna kórónuveirunnar kemur fram að klára verði öll mót fyrir 1 desember, ef hertar reglur gilda ekki lengur en til 3 nóvember ætti að vera hægt að ljúka öllu fyrir þann tíma.