Íslenska landsliðið kom til Istanbúl nú fyrir hádegi að íslenskum tíma og gekk ferðin vel. Komu íslenska liðsins var sjónvarpað í tyrkneska sjónvarpinu en afar ströng öryggisgæsla var á flugvellinum þegar liðið kom eins og sjá má á meðfylgjandi myndbandi.
Leikurinn annað kvöld hefst klukkan 20 að staðartíma en klukkan 17 að íslenskum tíma. Í tyrkneskum fjölmiðlum kemur fram að uppselt sé á Turk Telekom Stadium, heimavöll Galatasaray. Völlurinn tekur rúmlega 52 þúsund áhorfendur í það heila.
Eins og komið hefur fram hafa Tyrkir spilað fáa leiki í Istanbúl á undanförnum árum og seldist upp á leikinn um leið og miðar fóru í sölu.
Völlurinn er sá háværasti í heimi, hvergi í heiminum mælast eins mikil læti á knattspyrnuleik.
Þennan glæsilega leikvang má sjá hér að neðan.