Fréttir

Íbúar höfuðborgarsvæðisins varaðir við: „Það gæti orðið virkilega hvasst á laugardag“

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 17. maí 2018 13:09

„Við vekjum athygli á að spáð er leiðindaveðri á höfuðborgarsvæðinu næstu daga, en strax síðdegis verður komin suðaustanátt með 13 til 18 metrum á sekúndu og talsverðri rigningu,“ segir í tilkynningu á Facebook-síðu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Þar er varað við óvenjuleiðinlegu veðri næstu daga.

„Veðrið á morgun, samkvæmt spánni, er heldur ekkert til að hrópa húrra fyrir og þá lítur helgina alls ekki vel út. Það gæti orðið virkilega hvasst á laugardag og síðan er viðbúið að þessi lægð haldi áfram að stríða okkur líka á sunnudag. Í ljósi þessa minnum við fólk á að huga að lausamunum og festa þá niður eða koma í skjól, en hér er t.d. átt við garðhúsgögn og trampólín.“

Haraldur Eiríksson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir í samtali við mbl.is að veðurfarið nú sé óvenjulegt. Yfirleitt sé þurrasti tími ársins um þetta leyti en því sé ekki fyrir að fara í ár.

Ef marka má langtímaveðurspá norsku veðurstofunnar, yr.no, verða næstu dagar ekkert sérstakir á höfuðborgarsvæðinu hvað góðviðri varðar. Til 26. maí næstkomandi, að minnsta kosti, verður sólin ekki mjög áberandi og þá mun hitinn ekki fara yfir 10 gráður, verður hann yfirleitt á bilinu 4-9 stig.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af