fbpx
Miðvikudagur 16.janúar 2019

DV - Frjáls og óháður miðill

Fáðu DV í áskrift

Þú getur valið prentáskrift eða vefáskrift

Sjá nánar eða Lesa blaðið
Fréttir

Krúnuleikar í Reykjavík: Hver mun standa uppi sem sigurvegari?

Kristinn H. Guðnason
Sunnudaginn 13. maí 2018 12:00

Sextán flokkar bjóða fram krafta sína til að sitja í borgarstjórn Reykjavíkur í vor fyrir kosningarnar sem fram fara 26. maí. Kosningabaráttan er þegar orðin hörð og á aðeins eftir að harðna þegar nær dregur enda eygja margir þá von að ná fjögurra prósenta þröskuldinum til þess að fá mann kjörinn. DV reiknar með að ástandið verði líkt og í Krúnuleikum Georges R.R. Martin og fann samsvörun í helstu valdaættunum þar.

 

Samfylkingin – Stark

Stark-ættin er góða fólkið, svo réttsýnt að áhorfendum verður flökurt. Þetta vammleysi og skortur á klókindum getur hins vegar orðið til þess að menn missi höfuðið eins og foringi þeirra Eddard fékk að kynnast. Samfylkingin verður að læra að bíta frá sér ef hún ætlar að lifa af í hörðum heimi. Spyrjið bara Oddnýju.

Sjálfstæðisflokkurinn – Lannister

Lannister-ættin er líkt og Sjálfstæðisflokkurinn erkitýpan af illsku þó    að þar leynist einstaka grey með samvisku inni á milli. Þetta er ættin sem gerir hvað sem er fyrir völd og á nóg af skildingum til að láta óþægileg mál hverfa. Líkt og systkinin Jaime og Cersei eru Eyþór Arnalds og Hildur Björnsdóttir óárennileg sem andstæðingar en hver veit hvað fer fram bak við tjöldin?

Vinstri græn – Martell

Dorne, svæði Martel-ættarinnar, er himnaríki háskólamenntaðra umhverfissósíalista. Þar er fólk af öllum kynþáttum, konur eru áberandi og valdamiklar og æðsti valdhafinn, Doran prins, er fatlaður. Líkt og margir vinstri leiðtogar lifir Martell-ættin í sérstaklega miklum vellystingum í Vatnagörðunum.

Miðflokkurinn – Clegane

Það er öllum ljóst að Miðflokkurinn vill vinna með Sjálfstæðisflokknum líkt og Clegane-ættin sem ver Lannister fram í rauðan dauðann. Forsprakkar Miðflokksins, Vigdís Hauksdóttir og Sveinn Hjörtur Guðfinnsson, minna óneitanlega á hina öflugu og miskunnarlausu Clegane-bræður, Vigdís á Hundinn og Sveinn á Fjallið. Þegar þau koma ríðandi í hlað er best að forða sér.

Píratar – Greyjoy

Hin svartklædda og brúnaþunga Greyjoy-ætt byggir völd sín á sjóránum. Sjóræningjar frá Járneyjunum hafa siglt upp öll fljót á meginlandinu og angrað þá sem þar búa líkt og Píratarnir með sínar rannsóknarnefndir og spurningaflóð.

Viðreisn – Arryn

Arryn er átakafælin ætt sem lokar sig af bak við hið Blóðuga hlið á meðan allar aðrar ættir berast á banaspjótum. Þess í stað hugsar leiðtogi þeirra, Lysa Arryn, einungis um eigin ástamál á meðan hún gefur stálpuðum syni sínum brjóst. Að loka augunum fyrir vandamálum borgarinnar og ræða aðeins um þægileg málefni er list sem Þórdís Lóa Þórhallsdóttir kann vel.

Framsóknarflokkurinn – Tyrell

Tyrell-ættin stýrir víðáttumiklu landbúnaðarhéraði og á glás af peningum. Líkt og Framsóknarmenn hafa Tyrell-liðar ávallt reynt að koma sér í mjúkinn hjá þeim sem situr á krúnunni. Framsókn tókst með klókindum að komast í borgarstjórn árið 2014 líkt og þegar Olenna kom barnabarni sínu í konungsdyngjuna. En Ingvar Mar virðist jafn ráðalaus og sonur hennar Mace.

Björt framtíð – Baratheon

Baratheon var eitt sinn ein mesta valdaætt Westeros og hinn brúnskeggjaði leiðtogi þeirra Robert sat í hásætinu. Það sama mætti segja um Bjarta framtíð sem var í ríkisstjórn og í meirihluta í þremur stærstu sveitarfélögunum. En nú eru Robert og allir bræður hans dauðir, og allir afkomendur þeirra líka.

Alþýðufylkingin – Baelish

Baelish-ættin er svo lítil að hún virðist aðeins vera einn maður, Litli fingur. Eða Albaníu Valdi. Þetta er klókasti maðurinn í landinu og allir vita að hann spilar langan leik. Að lokum mun hann enda á hásætinu en hvernig hann gerir það er okkur ráðgáta. Ekki líta af Albaníu Valda í eina sekúndu.

Karlalistinn – Næturvaktin

„Ég skal engri konu giftast og vera engu barni faðir. Ég er sverðið í myrkrinu,“ segir í eiðstaf Næturvaktarinnar. Á Veggnum mikla hírast aðeins karlar, einangraðir í myrkri og kulda, bitrir yfir þeim litla stuðningi sem þeir fá.

Kvennahreyfingin – Targaryen

Þegar þrælaborgin Yunkai var frelsuð hópuðust allir hinir nýfrelsuðu þrælar að Daenerys Targaryen og hrópuðu „Mhysa! Mhysa!“ eða „Móðir! Móðir!“. Hér var kominn fram nýr leiðtogi sem hafði hin kvenlegu gildi gæskunnar og réttlætisins að leiðarljósi, móðir alls mannkyns. Sama gildir um Ólöfu Magnúsdóttur hjá Kvennahreyfingunni en hún á þó enga dreka til að fleyta henni inn í borgarstjórn.

Íslenska þjóðfylkingin – Hvítgenglarnir

Það er kannski ofsögum sagt að það stafi jafn mikil hætta af Íslensku þjóðfylkingunni og Hvítgenglunum. En ef flokkurinn nær að sanka að sér jafn miklum fjölda af heila- og tilfinningalausum uppvakningum og Hvítgenglarnir gera, þá getur hann lagt heilu byggðarlögin í rúst.

Frelsisflokkurinn – Frey

Framboðsfundur Frelsisflokksins við Ráðhús Reykjavíkur var vendipunktur í kosningabaráttunni líkt og Brúðkaupið rauða var í Krúnuleikum. Þar mundaði Gunnlaugur Ingvarsson drullusokk fyrir framan hátt í tíu manns með sigurbros á vör. Minnti þetta óneitanlega á glott Walders Frey þegar hann hafði látið slátra allri fylkingu Stark-ættarinnar og drottningin sjálf lá kviðrist á gólfinu.

Höfuðborgarlistinn – Spörvarnir

Það veit enginn hvernig Spörvarnir urðu til. Enginn bað um þá en allt í einu voru þeir mættir og farnir að skipta sér af öllu. Trúarregla sem virtist nærast á því að vera erfið við alla og rífa kjaft. Hinar ættirnir lærðu að það þýðir ekki að tipla á tánum í kringum Spörvana, ítrustu meðala var þörf.

Sósíalistaflokkurinn – Tully

Tully-ættin ríkir á Fljótasvæðinu sem liggur mitt á milli flestra annarra svæða í Westeros. Í hvert skipti sem brjótast út átök lendir þessi hópur því undir. Húsin eru brennd ofan af fólki, öllu fé stolið og þaðan af verra. Líkt og Tully-ættin þarf Sósíalistaflokkurinn að berjast fyrir því að fá að vera til.

Borgin mín Reykjavík – Bolton

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir vill svipta öll skólabörn snjallsímunum líkt og Ramsay Bolton vill svipta fólk húðinni. Ramsay kom einmitt fram á sjónarsviðið sem eitt mesta illmenni þáttanna um svipað leyti og Sveinbjörg beitti sér gegn moskubyggingu. Þræðir þeirra liggja saman.

Flokkur fólksins – Fylgjendur R´hllor

Flokkur fólksins boðar trú líkt og fylgjendur R´hllor, guðs ljóssins. Mantra flokksins snýst um fátæk börn og öryrkja og allir sem gagnrýna eru haldnir „illsku“ sem þarf að uppræta. Vonandi tekur hvíta konan Kolbrún Baldursdóttir ekki upp á því að brenna fólk á báli líkt og rauða konan Melisandre.

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Boðar róttækar aðgerðir til að fjölga kennaranemum og bæta starfsumhverfi kennara

Boðar róttækar aðgerðir til að fjölga kennaranemum og bæta starfsumhverfi kennara
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Handtekinn í Árbæ

Handtekinn í Árbæ
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Flugdólgum vísað úr flugvél á Keflavíkurflugvelli – Fagnaðarlæti brutust út – Sjáðu myndbandið

Flugdólgum vísað úr flugvél á Keflavíkurflugvelli – Fagnaðarlæti brutust út – Sjáðu myndbandið
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Samgöngustofa hætti við ráðningu lögfræðingsins vegna dóms – „Ég ætla að að drepa þig hehehe“

Samgöngustofa hætti við ráðningu lögfræðingsins vegna dóms – „Ég ætla að að drepa þig hehehe“