fbpx
Miðvikudagur 01.maí 2024
Fréttir

Krýsuvík: Lovísa fékk nýjan bíl á 4,7 milljónir

Framkvæmdastjóri fékk glænýjan 4,7 milljóna króna bíl til afnota – 300 metrar frá heimili til skrifstofu

Björn Þorfinnsson
Laugardaginn 3. febrúar 2018 12:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Þann tíma sem ég starfaði í Krýsuvík þá skildi ekki nokkur maður í bílakaupum samtakanna. Það var sífellt verið að fjárfesta í einhverjum druslum sem dugðu aðeins í skamman tíma. Það sama gilti ekki um yfirstjórnendurna. Ég upplifði þetta sem gegndarlaust bílabrask,“ segir fyrrverandi starfsmaður meðferðarheimilisins í Krýsuvík í samtali við DV. Þann tíma sem viðkomandi starfaði á meðferðarheimilinu segir hann að starfsmenn hafi verið ósáttir við þá staðreynd að gamlar druslur voru keyptar til þess að ferja starfsmenn og skjólstæðinga til og frá Krýsuvík á meðan yfirstjórnendurnir, mæðginin Lovísa Christiansen, framkvæmdastjóri Krýsuvíkursamtakanna, og Þorgeir Ólason, forstöðumaður meðferðarheimilisins, hafi fjárfest í mun veglegri ökutækjum til eigin afnota. Þá kemur margt einkennilegt í ljós þegar bílaviðskipti samtakanna eru skoðuð. Meðal annars hefur Þorgeir bæði keypt og selt samtökunum bíla og þá fékk 18 ára barnabarn Lovísu bíl sem áður var í eigu samtakanna.

Of dýr bíll við nánari athugun

Í síðust viku greindi DV frá því að Lovísa Christiansen, framkvæmdastjóri Krýsuvíkursamtakanna, hefði fjárfest í splunkunýrri Dodge Ram-bifreið handa syni sínum, Þorgeiri Ólasyni, forstöðumanni samtakanna. Bifreiðin kostaði tæpar 10 milljónir króna þegar allt var tekið með í reikninginn. Þegar DV spurðist fyrir um kaupin og hvort þau væru eðlileg þá var bíllinn þegar í stað auglýstur til sölu á bílasölu. Útskýring samtakanna á þeirri ákvörðun var á þá leið að við nánari athugun hafi bíllinn verið of dýr fyrir samtökin.

Þegar DV spurði út í bílakaup samtakanna sagði stjórnarformaður Krýsuvíkursamtakanna, Sigurlína Davíðsdóttir, að stjórnin hefði ekki verið með fingurna í bílaumsvifum stofnunarinnar. Hún hafi þó verið upplýst um þau umsvif þegar eftir því var óskað.

Einkennileg viðskipti

Ýmislegt athyglisvert kemur í ljós þegar bílaviðskipti Krýsuvíkursamtakanna eru skoðuð. Þannig fjárfesti Lovísa í glænýrri Skoda Octavia-bifreið fyrir sjálfa sig í nóvember 2012. Kaupverðið var 4,7 milljónir króna. Það verður að teljast einkennileg ráðstöfun á meðferðarheimili, sem að sögn forsvarsmanna nær varla endum saman. Sérstaklega í ljósi þess að skrifstofa Krýsuvíkursamtakanna, þar sem Lovísa starfar dagsdaglega, er 300 metrum frá heimili hennar í Hafnarfirði. Samkvæmt heimildum DV á hún afar sjaldan erindi á meðferðarheimilið sjálft í Krýsuvík.

Þá hafa ýmisleg einkennileg viðskipti átt sér stað. Til dæmis keypti títtnefndur Þorgeir Ólason Dodge Ram 250 af Krýsuvíkursamtökunum í júní árið 2001 en þá höfðu samtökin haft afnot af bifreiðinni í þrjú ár. Þorgeir átti bifreiðina í tæp átta ár áður en hann seldi hana áfram í byrjun árs 2008. Þá keypti hann einnig Chevrolet-bifreið af samtökunum um mitt ár 2004 en áframseldi hana síðan nokkrum mánuðum síðar. Þá keypti meðferðarheimilið dráttarvél af Þorgeiri í desember 2005 en þá hafði hann eingöngu átt vélina í rúma þrjá mánuði. Þá eignaðist barnabarn Lovísu forláta Suzuki Vitara-bifreið sem var áður í eigu samtakanna. Samkvæmt heimildum DV var sá gjörningur sagður vera laun til piltsins sem þá var 18 ára gamall.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt