fbpx
Fimmtudagur 17.janúar 2019
Fréttir

Arnar sparkar í RÚV og Stígamót: „Stígamót hafa sjúkdómsgreint kærastann einnig“

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 8. nóvember 2018 09:40

Arnar Sverrisson, fyrrverandi yfirsálfræðingur geðdeildar á Akureyri, vandar RÚV og Stígamótum ekki kveðjurnar eftir þáttinn Allir krakkar sem sýndur var á dögunum.

Þátturinn sem um ræðir tengdist fjáröflunarátaki þar sem safnað var fyrir forvarnarstarfi Stígamóta. Fjallaði hann meðal annars um kynferðisofbeldi og kynferðislega áreitni með sérstakri áherslu á að fræða ungt fólk um mörk og samþykki.

Í grein sem Arnar skrifar í Morgunblaðið í dag segir hann að með þættinum hafi RÚV tekið „enn eitt skrefið í átt til fjölmiðlunarlágkúru“ eins og hann orðar það. Arnar hefur áður skrifað greinar í Morgunblaðið og vakti til að mynda grein sem hann fékk birta þann 5. Október síðastliðinn athygli. Þar sagði hann að uppeldi kvenna á drengjum væri stórhættulegt.

En í grein sinni í Morgunblaðinu í dag sparkar hann í RÚV og Stígamót vegna þáttarins sem nokkuð var fjallað um á dögunum.

„Þátturinn minnir óþægilega á sams konar fjölmiðlun í samvinnu við sjónvarp Símans og Kvennaathvarfið í september á síðasta ári. Aðferðin er sú sama. Leidd eru fram fórnarlömb karla, konur, sem lýsa þrautagöngu sinni og þjáningum. Öll koma vitnin fram undir nafni (nema eitt), svo auðvelt ætti að vera að auðkenna hinn meinta misindismann. Harmsögurnar hræra fólk til meðaumkunar eins og gefur að skilja, skapa tilfinningalegan grunn að múgsefjun RÚV. „Hjartað fer í klessu,“ sagði einn þáttarstjórnenda. Þegar hjartað fer í klessu verður erfitt að hugsa af skynsemi og spyrja gagnrýninna spurninga.“

Arnar spyr hvers vegna stjórnmálamenn fela „kvenfrelsunaröfgasamtökum“ jafn mikilvægan hluta heilbrigðis- og félagsþjónustunnar.

„Alþingi og sveitarfélög fjármagna starf þeirra að mestu leyti, án þess að hafa neitt um starfsemina að segja. Hugmyndafræðin er skýr. Starfsemin er dulbúin sem jafnréttisbarátta: „Jafnrétti og femínismi eru tvö hugtök sem væru ekki til án hvort annars.“ Hin eldgamla kvenfrelsaralumma um kúgun kvenna er sígild: „Það sem telst karllægt hlýtur virðingu og völd en það sem er talið kvenlegt er álitið ómerkilegra. Þetta gerir það að verkum að konur og aðrir sem tilheyra minnihlutahópum eru skörinni lægra í samfélaginu en karlar.“ Og frekar er útskýrt: „Samfélagsgerðin okkar er mjög kynjuð og gefur því sem gæti talist karllægt meira vægi og virðingu en því sem gæti talist kvenlegt. Má [því] segja að kynjamisrétti sé rótgróið og kerfisbundið. Á þessu vekja femínistar athygli og leggja sig fram um að breyta kynjuðum viðhorfum með ýmsum aðgerðum.“ Karlar eru undirrót alls ills. Þeir komu sér upp kúgunartæki, hinu margumrædda „feðraveldi“:„Kynferðisofbeldi er rótgróið í kynjakerfinu þar sem karlar eru í forréttindastöðu gagnvart konum, fólki af öðrum kynjum, unglingum og börnum.“ Það ætti því ekki að koma á óvart, að „[n]auðgunarmenning er allsráðandi í samfélaginu …“

Arnar segir að í þættinum hafi kynjafræðikennari úr Borgarholtsskóla tekið undir þetta í umfjöllun sinni um klám „sem fortakslaust er sagt ofbeldi“ eins og Arnar kemst að orði:

„Konur eru kerfisbundið svívirtar og beittar ofbeldi – [í menningu, sem er] gegnsýrð af kvenfyrirlitningu.“ Þetta eru sum sé fræðileg og persónuleg grunnviðhorf þeirra, sem treyst er fyrir mikilvægum hluta heilbrigðisþjónustu, félagsþjónustu og menntun íslensku þjóðarinnar.

Arnar segir að í þættinum sem sýndur var í síðustu viku hafi „dómgreindarleysi og siðleysi“ náð hámarki „þegar ólánsamri stúlku var att á forað sviðsljóssins. Mér varð hreinlega ómótt af sviðssetningunni og þeirri faglegu og siðferðilegu misnotkun, sem átti sér stað. Samkvæmt frásögn starfsmanns Stígamóta sátu ráðgjafar þeirra í mörg ár við að fræða stúlkuna. Speki samtakanna „tók langan tíma að síast inn“. En það hefur greinilega tekist bærilega, því í framburði stúlkunnar, stjórnað með staðfestandi spurningum ráðgjafa, birtist hugmyndafræði Stígamóta greinilega ásamt nokkrum sjúkdómsgreiningum; ofsakvíða, átröskun, áfallastreituröskun og „flash back“ (skyndilegum ógnarendurminningum),“ segir Arnar sem endar grein sína á þessum orðum:

„Stígamót hafa sjúkdómsgreint kærastann einnig. Hann er haldinn „sjúkri karlmennsku“. Þáttarstjórnandi telur að samband ungmennanna hafi verið „ein samfelld nauðung og nauðgun“ af hálfu unnustans. Ætli RÚV og Stígamót hafi leitt hugann að líðan hinna meintu ofbeldismanna við umfjöllunina eða hvernig örvað sé til frekara ábyrgðarleysis í umfjöllun í netheimum? Ætli RÚV muni segja þeirra sögu? RÚV og Stígamót kynda undir kynjastríðinu. Ég minni á orð skynsamasta þátttakandans í sýningunni, Gests Pálmasonar, sem hvetur til „að kynin taki sig saman á samfélagslegum nótum og reyni að laga þetta [þ.e. kynjamisklíðina]“.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Rannsóknarlögreglumaður og yfirlögregluþjónn börðu hvor annan í Vestmannaeyjum – Nú hafa þeir fengið dóm

Rannsóknarlögreglumaður og yfirlögregluþjónn börðu hvor annan í Vestmannaeyjum – Nú hafa þeir fengið dóm
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sigurjón Kjartansson biðst afsökunar – „Ég er þessi handritshöfundur“

Sigurjón Kjartansson biðst afsökunar – „Ég er þessi handritshöfundur“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Þröstur réð Jón Baldvin þrátt fyrir mótmæli starfsmanna – Var með þátt á Rás 1 eftir áramót

Þröstur réð Jón Baldvin þrátt fyrir mótmæli starfsmanna – Var með þátt á Rás 1 eftir áramót
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Einar ósáttur: „Því er bætt við að ég væri „maður að meiri“ ef ég segði frá því“

Einar ósáttur: „Því er bætt við að ég væri „maður að meiri“ ef ég segði frá því“