fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Fréttir

Milljónum stolið frá lögreglu: Fóru í handtökur eftir drykkju – Myndir

Kristjón Kormákur Guðjónsson
Þriðjudaginn 9. janúar 2018 10:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Það hafðist ekki uppi á þeim sem mögulega bar ábyrgð á því að þessir hlutir hurfu. Þeirri rannsókn var því hætt.“

Þetta segir Ólafur Þór Hauksson í samtali við Fréttablaðið vegna Strawberries-málsins. DV greindi frá því í mars 2017 að dýr Rolex-úr, verðmætir skartgripir og reiðufé sem haldlagt var við húsleit lögreglu í tengslum við rannsókn á starfsemi kampavínsklúbbsins Strawberries árið 2013 virðist hafa horfið með dularfullum hætti úr hirslum Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Verðmæti munanna hleypur á milljónum króna og var málið kært. Lögmaður eiganda Strawberries sagði í samtali við DV að lögregla hefði málið til skoðunar.

Þegar húsleit fer fram skráir lögreglan niður allt sem tekið er og færir í munaskrá. Haldlagðir munir eru síðan geymdir í hirslum lögreglu.

Í frétt DV kom fram að meðal þess sem haldlagt var á Strawberries voru nokkur Rolex-armbandsúr, bindisnælur, hringar, hálsmen og annað verðmætt skart, þar á meðal erfðagripir, og nokkuð af reiðufé, bæði evrur og dollarar. Verðmæti þessara muna og lausafjár hleypur á mörgum milljónum króna samkvæmt heimildum.

Tálbeituaðgerð og rassía

Árið 2013 sætti Strawberries lögreglurannsókn vegna meintrar vændisstarfsemi og mansals sem varð til þess að eigandinn, Viðar Már Friðfinnsson, og fjórir aðrir starfsmenn voru handteknir í kjölfar rassíu. Við rannsókn málsins voru meðal annars notaðar tálbeitur þar sem óeinkennisklæddir lögreglumenn fóru inn á staðinn til að reyna að afhjúpa meinta ólöglega starfsemi.

Í kjölfarið var staðnum lokað, hann innsiglaður og húsleitir framkvæmdar. Tveimur árum síðar, í júní 2015, lýsti ríkissaksóknari því yfir að málið hefði verið fellt niður. Það eina sem eftir stóð af ítarlegri rannsókn málsins voru meint stórfelld skattalagabrot fyrrum eiganda, Viðars Más sem ákært var fyrir.

Sagðir hafa eytt 1,1 milljón á staðnum

Í umræddri kæru komu meðal annars fram ásakanir um að lögreglumenn hefðu setið að sumbli í tálbeituaðgerðunum, verið drukknir þegar handtökur hófust inni á staðnum eftir lokun og eytt verulegum fjárhæðum, samkvæmt heimildum DV um 1.100 þúsund krónum, í áfengi á staðnum að því er virðist til að reyna að grípa konur við að bjóða þeim kynlífsþjónustu gegn greiðslu.

Meðal gagna sem fylgdu kærunni var myndband úr eftirlitsmyndavél staðarins sem sýnir nokkra óeinkennisklædda lögreglumenn sitja og drekka áfengi í félagsskap stúlkna á staðnum í nokkrar klukkustundir. Blaðamaður DV fékk að sjá brot úr umræddu myndbandi.

„Það er í mínum huga ekki æskilegt að þetta skuli geta gerst,“ segir Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari í samtali við Fréttablaðið um málið og bætti við á öðrum stað:

„Það hafðist ekki uppi á þeim sem mögulega bar ábyrgð á því að þessir hlutir hurfu. Þeirri rannsókn var því hætt.“

Fóru í handtökur eftir drykkju

Í fyrri frétt DV kom fram að á eftirlitsmyndböndböndum mátti sjá lögreglumenn panta og drekka fjölmarga bjóra. Hér má lesa eldri umfjöllun DV á því sem fram fór á staðnum.

Hér má sjá einn óeinkennisklæddu lögreglumannanna við barinn á Strawberries.
Lögreglumaður á barnum Hér má sjá einn óeinkennisklæddu lögreglumannanna við barinn á Strawberries.
Hér eru lögreglumennirnir tveir, annar sullar niður drykk sínum og ekki verður um villst að hann er að drekka bjór.
Bjórinn sullast Hér eru lögreglumennirnir tveir, annar sullar niður drykk sínum og ekki verður um villst að hann er að drekka bjór.

Eitt af sönnunargögnum í kærumálinu gegn lögreglunni vegna aðgerðanna á Strawberries eru myndskeið úr eftirlitsmyndakerfi staðarins. Blaðamenn DV fengu við vinnslu þessarar umfjöllunar að sjá brot úr umræddum myndskeiðum sem sýna annars vegar það sem fullyrt er að séu óeinkennisklæddir lögreglumenn við barinn á kampavínsklúbbnum að panta sér og drekka ótæpilega af áfengi.

Líkt og fram hefur komið fylgdu myndskeiðin kærunni til héraðssaksóknara síðastliðið sumar þar sem lögreglumennirnir voru sakaðir um að hafa verið drukknir við skyldustörf og framkvæmt fyrstu handtökur í málinu eftir að hafa setið að sumbli á staðnum. Mennirnir sjást panta sér og greiða fyrir fjölmarga bjóra og drekka þá. En ekki aðeins bjór, heldur í að minnsta kosti tvö skipti sjást mennirnir, sem fullyrt er að séu lögreglumenn, fá sér eitthvað sem líklega er koníak eða viskí í glas. Sjást þeir velta glasinu um í lófanum, þefa af því og drekka í botn. Að minnsta kosti einn mannanna, virðist síðar vera orðinn áberandi ölvaður við barinn.

Hitt sem myndskeiðin sýna er aðdragandi aðgerða lögreglu á Strawberries þar sem farið var í handtökur á starfsmönnum staðarins þegar verið er að loka umrætt kvöld. Þar sjást tveir menn, sem síðar er ljóst að eru lögreglumenn. Búið er að kveikja ljósin á staðnum vegna lokunar og dyravörður og barþjónar að vísa gestum staðarins á dyr.

Hér má sjá þegar einn lögreglumannanna handtekur barþjóninn. Í forgrunni er lögreglumaður að þamba bjór sinn.
Handtaka í gangi Hér má sjá þegar einn lögreglumannanna handtekur barþjóninn. Í forgrunni er lögreglumaður að þamba bjór sinn.
Hér má sjá augnablikið þegar lögreglumaðurinn, sem á fyrri mynd hafði verið að klára bjórinn sinn, gengur hart fram gegn dyraverði sem í þessum ramma er við það að skella harkalega í gólfið.
Dyravörður keyrður í gólfið Hér má sjá augnablikið þegar lögreglumaðurinn, sem á fyrri mynd hafði verið að klára bjórinn sinn, gengur hart fram gegn dyraverði sem í þessum ramma er við það að skella harkalega í gólfið.

Annar lögreglumannanna er með bjórflösku í hönd þegar þeir ráðfæra sig hvor við annan, og miðað við það sem síðar gerist eru þeir að skipuleggja handtökuaðgerðir. Lögreglumaðurinn með bjórinn í hönd, fær sér síðan gúlsopa, leggur flöskuna á barborðið og virðist líta eftir félögum sínum sem von er á. Eftir stutta stund snýr dyravörðurinn aftur í mynd eftir að hafa brugðið sér frá, en þá er annar lögreglumannanna að handtaka barþjón við barinn og dyravörðurinn athugar málið.

Þá vindur sér upp að honum hinn lögreglumaðurinn sem nýbúinn var að leggja frá sér bjórflöskuna, grípur í frakka dyravarðarins sem bakkar. Einhver orðaskipti verða þeirra á milli en dyravörðurinn virðist spakur og lítt ógnandi. Af myndbandinu verður ekki annað ráðið en að lögreglumaðurinn keyri dyravörðinn sem var að hörfa aftur á bak í jörðina, með þeim afleiðingum að hann fellur harkalega aftur fyrir sig á gólfið af nokkru afli. Lendir meðal annars illa á litlu sviði sem þar er.

Myndbönd af þessum atvikum, sem blaðamenn DV fengu að sjá, voru meðal þeirra sem lögð voru fram með kæru um aðgerðir lögreglu. Sem fyrr segir, voru lögreglumennirnir sakaðir um að hafa verið undir áhrifum áfengis við aðgerðirnar og handtökur í kjölfarið inni á staðnum. Umrædd myndbönd virðast renna stoðum undir þær ásakanir.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Lögregla kölluð út vegna tjaldbúða í miðborginni

Lögregla kölluð út vegna tjaldbúða í miðborginni
Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Fordæmalaus staða gæti komið upp á gosstöðvunum á Reykjanesskaga – „Þetta er fyrsta skiptið sem við sjáum svona“

Fordæmalaus staða gæti komið upp á gosstöðvunum á Reykjanesskaga – „Þetta er fyrsta skiptið sem við sjáum svona“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Jóhann hlaut dóm í héraði – Leigði ólöglega brunagildru í Þverholti til búsetu og stofnaði lífum í hættu

Jóhann hlaut dóm í héraði – Leigði ólöglega brunagildru í Þverholti til búsetu og stofnaði lífum í hættu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Stjórnarflokkarnir eru að koma sér upp þægilegum merkimiðum þegar styttist í kosningar

Ólafur Þ. Harðarson: Stjórnarflokkarnir eru að koma sér upp þægilegum merkimiðum þegar styttist í kosningar
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Næsta skref – byltingakenndar breytingar

Næsta skref – byltingakenndar breytingar