Strawberries-rassían: Myndband sýnir lögreglumenn þamba áfengi

Haldlagðar eignir úr húsleit hurfu úr hirslum lögreglu – Eftirlitsnefnd með málin til skoðunar – Harðræði lögreglumanns gegn dyraverði náðist á myndband

Eftir tálbeituaðgerðir lögreglu inni á Strawberries-staðnum voru eigandi og fjórir starfsmenn handteknir og framkvæmdar húsleitir. Lagt var hald á mikið af munum sem til stóð að gera upptæka. Munirnir hurfu síðan úr geymslum lögreglu. Myndir úr eftirlitsmyndavélum sýna áfengisdrykkju lögreglumanna á staðnum kvöldið sem áhlaup var gert.
Verðmæti finnast ekki Eftir tálbeituaðgerðir lögreglu inni á Strawberries-staðnum voru eigandi og fjórir starfsmenn handteknir og framkvæmdar húsleitir. Lagt var hald á mikið af munum sem til stóð að gera upptæka. Munirnir hurfu síðan úr geymslum lögreglu. Myndir úr eftirlitsmyndavélum sýna áfengisdrykkju lögreglumanna á staðnum kvöldið sem áhlaup var gert.
Mynd: Samsett mynd/DV

Dýr Rolex-úr, verðmætir skartgripir og reiðufé sem haldlagt var við húsleit lögreglu í tengslum við rannsókn á starfsemi kampavínsklúbbsins Strawberries árið 2013 virðist hafa horfið með dularfullum hætti úr hirslum Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Verðmæti munanna hleypur á milljónum króna og liggur fyrir kæra vegna málsins. Nýstofnuð nefnd um eftirlit með störfum lögreglu hefur tekið málið til skoðunar sem og fyrri kæru eiganda Strawberries frá því í fyrrasumar, er varðar aðgerðir lögreglu í Strawberries-málinu. Þetta staðfestir lögmaður eiganda Strawberries í samtali við DV. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu telur rétt að tjá sig ekki um málið meðan það er til skoðunar hjá nefndinni.

Tálbeituaðgerð og rassía

Árið 2013 sætti Strawberries lögreglurannsókn vegna meintrar vændisstarfsemi og mansals sem varð til þess að eigandinn, Viðar Már Friðfinnsson, og fjórir aðrir starfsmenn voru handteknir í kjölfar rassíu. Við rannsókn málsins voru meðal annars notaðar tálbeitur þar sem óeinkennisklæddir lögreglumenn fóru inn á staðinn til að reyna að afhjúpa meinta ólöglega starfsemi.

Í kjölfarið var staðnum lokað, hann innsiglaður og húsleitir framkvæmdar. Tveimur árum síðar, í júní 2015, lýsti ríkissaksóknari því yfir að málið hefði verið fellt niður. Það eina sem eftir stóð af ítarlegri rannsókn málsins voru meint stórfelld skattalagabrot Viðars Más sem ákært var fyrir, en hafa ekki verið til lykta leidd.

Á mánudag var íslenska ríkið svo dæmt til að greiða fyrrverandi dyraverði á Strawberries 800 þúsund krónur í miskabætur vegna gæsluvarðhalds sem hann sætti í tengslum við rassíu lögreglu. Enn eru þó ekki öll kurl komin til grafar í þessu máli.

Sagðir hafa eytt 1,1 milljón á staðnum

DV.is greindi frá því í maí 2016 að Viðar Már hefði kært lögreglu til embættis héraðssaksóknara vegna aðgerða á Strawberries árið 2013. Í umræddri kæru komu meðal annars fram ásakanir um að lögreglumenn hefðu setið að sumbli í tálbeituaðgerðunum, verið drukknir þegar handtökur hófust inni á staðnum eftir lokun og eytt verulegum fjárhæðum, samkvæmt heimildum DV um 1.100 þúsund krónum, í áfengi á staðnum að því er virðist til að reyna að grípa konur við að bjóða þeim kynlífsþjónustu gegn greiðslu.

Meðal gagna sem fylgdu kærunni var myndband úr eftirlitsmyndavél staðarins sem sýnir nokkra óeinkennisklædda lögreglumenn sitja og drekka áfengi í félagsskap stúlkna á staðnum í nokkrar klukkustundir. Blaðamaður DV hefur fengið að sjá brot úr umræddu myndbandi en nánar er greint frá því í helgarblaði DV.

Nánar um málið í helgarblaði DV þar sem sjá má skjáskot úr umræddu eftirlitsmyndbandi.

Viltu lesa meira? Þú getur strax lesið þessa grein og aðrar í heild sinni hér á DV.is með því að ýta á „Sjá meira“ og nýta þér hagstæða áskriftartilboð frá aðeins 928 kr. á mánuði.
Sjá meira »
Gleymt lykilorð?
Auglýsing

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.