fbpx
Miðvikudagur 01.maí 2024
Fréttir

Glæpasagnahöfundur grunaður um fjögur morð: Skrifaði hann um sjálfan sig?

Ótrúlegt mál rithöfundar sem sagður er hafa játað á sig fjögur morð fyrir rúmum 20 árum

Einar Þór Sigurðsson
Fimmtudaginn 17. ágúst 2017 07:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í inngangi bókar sinnar, The Guilty Secret, skrifaði kínverski glæpasagnahöfundurinn Liu Yongbiao að hann væri þegar byrjaður á nýju verki; spennuþrunginni bók um glæpasagnahöfund sem kemst undan réttvísinni þrátt fyrir að hafa framið skelfileg morð. Bókina ætlaði hann að nefna The Beautiful Writer who Killed.

Ekki er loku fyrir það skotið að söguþráður bókarinnar hafi verið byggður á reynslu Liu sjálfs því hann var handtekinn á dögunum, grunaður um að hafa myrt fjórar manneskjur fyrir rúmum tuttugu árum.

Þetta kemur fram í vefútgáfu breska blaðsins The Guardian sem fjallar um málið.

Búinn að bíða lengi

„Ég er búinn að bíða eftir ykkur í allan þennan tíma,“ á Liu að hafa sagt þegar lögregla bankaði upp á hjá honum að morgni föstudags í síðustu viku.

Liu þessi hafði notið ágætrar velgengni sem glæpasagnahöfundur í Kína og var til að mynda gerð 50 þátta sjónarpsþáttasería upp úr einni þeirra.

Lögreglu grunar að Liu hafi myrt fjórar manneskjur að kvöldi 29. nóvember árið 1995. Hann hafi verið annar tveggja manna sem fóru á gistiheimili í borginni Huzhou, í austurhluta landsins, í þeim tilgangi að ræna gesti gistiheimilisins. Eitt fórnarlambanna, maður að nafni Yu, streittist á móti og var hann barinn til bana í kjölfarið. Og til að koma í veg fyrir að þeir þekktust myrtu þeir einnig hjónin sem áttu og ráku gistiheimilið og þrettán ára son þeirra.

Nýjar upplýsingar

Xu Zhicheng, einn þeirra lögreglumanna sem rannsökuðu málið á sínum tíma, segir við kínverska fjölmiðla að ekki hafi tekist að leysa málið í ljósi þess að engin vitni voru að morðunum. Þá voru engin tengsl á milli þeirra sem myrtir voru og þeirra tveggja einstaklinga sem frömdu ódæðisverkin.

Það var svo í byrjun sumars að lögregla fékk nýjar upplýsingar í málinu. Í umfjöllun Guardian kemur fram að ekki sé vitað með vissu hvaða upplýsingar það voru þó gefið sé til kynna að DNA-tæknin hafi spilað stórt hlutverk.

Chen Hongyue, lögreglumaður sem unnið hefur að rannsókn málsins að undanförnu, segir við kínverska fjölmiðla að Liu hafi viðurkennt morðin í bréfi sem hann skrifaði til eiginkonu sinnar. Þar hafi meðal annars komið fram að nú loks yrði hann frjáls frá þeirri sálarkvöl sem hann hefði upplifað síðustu ár.

Myrti eiginkonuna

Málið þykir minna á mál hollenska glæpasagnahöfundarins Richard Klinkhamer, en eiginkona hans, Hannelore, hvarf sporlaust árið 1991. Í kjölfarið skrifaði Klinkhamer bók og reyndi að sannfæra bókaútgefanda um að gefa hana út en án árangurs. Í bókinni skrifaði hann um sjö mögulegar aðferðir sem hann hefði getað notað til að drepa eiginkonu sína. Hann var ekki handtekinn vegna hvarfsins vegna þess að ekkert lík fannst. Níu árum síðar fundust líkamsleifar Hannelore undir húsi sem hjónin áttu. Klinkhamer játaði á sig morðið í kjölfarið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt