fbpx
Þriðjudagur 30.apríl 2024
Fréttir

Píratar eru fyrirstaðan

Stjórnarandstaðan er óraunhæfur valkostur – Stjórnin í þægilegri stöðu

Ritstjórn DV
Föstudaginn 30. júní 2017 10:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Klofningur innan Framsóknarflokksins er ekki lengur helsta fyrirstaðan í því að stjórnarandstaðan gæti tekið við stjórnartaumunum, félli ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar. Það er ósamstaða, skipulagsleysi og klofningur innan raða Pírata sem stendur í vegi fyrir því. Þetta er skoðun fjölda þingmanna stjórnarandstöðunnar sem DV hefur rætt við. Innanmein Pírata eru sögð slík að þingmenn annarra stjórnarandstöðuflokka þakka fyrir að ekki hafi tekist að setja saman fimm flokka stjórn, svo sem reynt var. Sú stjórn væri vísast sprungin margsinnis, sökum þessa.
Líkt og greint var frá í DV um síðustu helgi er Ásta Guðrún Helgadóttir, þingkona Pírata, einangruð frá hinum í þingflokknum. Þá hefur því verið haldið fram að persónulegar deilur og lausatök í stjórnun valdi erjum, bæði innan flokksins en einnig í samstarfi við aðra stjórnarandstöðuflokka. Þingmenn annarra stjórnarandstöðuflokka eru þessu sammála.

Smári hafnar ekki Framsóknarflokknum

Smári McCarthy, þingmaður Pírata, segir ekki ríkja neinn málefnaágreining innan þingflokks Pírata en deilt sé um vinnulag. Unnið sé að því að leysa þau mál og hann er bjartsýnn á að það muni takast. Hann segir enn fremur að hann geti ekki kvartað undan samvinnunni innan stjórnarandstöðunnar, hann hafi verið býsna ánægður með hana. Ef sitjandi stjórn hins vegar félli segir Smári ekki sjálfgefið að stjórnarandstaðan í heild, og þá með stuðningi einhvers flokkanna í núverandi ríkisstjórn eða í það minnsta einhverra þingmanna hennar, ætti að taka við. „Ef stjórnin félli þyrfti að skoða allar stöður upp á nýtt. Stjórnarandstaðan hefur, eins og ég segi, verið að vinna ágætlega saman og það þyrfti bara að skoða þá möguleika sem upp væru komnir. Ég get hins vegar ekki sagt hér og nú að þessi 31 manns hópur þingmanna væri lausnin. Vandinn liggur í því hvernig þingmannafjöldinn dreifðist í síðustu kosningum, þess vegna er flókið að mynda stjórn. Ég útiloka svo sem ekkert á þessum tímapunkti.“

Smári McCarthy, þingmaður Pírata, neitar að málefnaágreiningur ríki innan þingflokksins en segir að deilt sé um vinnulag.
Segir engan málefnaágreining Smári McCarthy, þingmaður Pírata, neitar að málefnaágreiningur ríki innan þingflokksins en segir að deilt sé um vinnulag.

Píratar höfnuðu því algjörlega í stjórnarmyndunarviðræðum að vinna með Framsóknarflokknum. Er afstaða flokksmanna breytt frá því þá?
„Það hefur ekki komið til umræðu en ef ég svara fyrir mig sjálfan, en ekki fyrir Pírata sem heild, að ef til kæmi myndi ég horfa á alla valkosti. Ég myndi hins vegar útiloka þá valkosti sem alls ekki kæmu til greina frekar hratt.“

Og hvaða valkostir væru það?
„Ég veit það ekki, það þyrfti að koma í ljós.“

Þvertaka fyrir að samvinnu

Innan Framsóknarflokksins ríkir veruleg tortryggni í garð Pírata og afstaða þeirra eftir kosningar, þegar þingmenn Pírata lýstu því ítrekað yfir að það kæmi ekki til greina að vinna með Framsókn, hefur ekki hjálpað. Þó er nokkur munur á því eftir því við hvern er talað innan þingflokksins hvort talið sé mögulegt að flokkarnir geti unnið saman. Nokkur hópur þingmanna Framsóknarflokksins þvertekur þannig fyrir að hægt að sé að vinna með Pírötum, ekki sé hægt að treysta þeim þrátt fyrir að ákveðið hafi verið að ganga í takt. Sömu þingmenn taka einnig undir þá skoðun að ríkisstjórnin geti setið í þægindum sökum þess hversu sundruð stjórnarandstaðan er. Aðrir þingmenn Framsóknarflokksins eru ekki jafn afdráttarlausir í þessum efnum og telja að mögulegt sé að stjórnarandstaðan gæti unnið saman en til þess þyrfti verulegar málamiðlanir.

Þreyta í VG

Innan Vinstri grænna ríkir talsverð þreyta í garð Pírata. Þar er tilfinningin sú að þingmenn séu umboðslausir að því marki að þeir búi ekki við fastmótaða stefnu, alla hluti þurfi að fara með til umræðu innan þingflokksins og þar af leiðandi taki allar viðræður milli stjórnarandstöðuflokkanna mjög langan tíma og ekki hægt að taka ákvarðanir nema eftir dúk og disk.

Ágæt reynsla af samstarfinu

Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, segir að sín reynsla af samstarfinu við Pírata sé ágæt. „Það að þau eru nýr og óhefðbundinn stjórnmálaflokkur getur vissulega valdið því að sum þeirra útspil geta verið óvænt en ég get ekki tekið undir að ekki sé hægt að vinna með þeim, ég treysti mér vel til þess. Mér finnst þetta vera, heilt yfir, áhugaverðir stjórnmálamenn. Stjórnarandstaðan hins vegar glímir við það, eðlilega, að þetta eru ólíkir flokkar. Það er líka þannig að félli stjórnin er ekki sjálfgefið að eini valkosturinn væri að stjórnarandstaðan tæki við, heimurinn er ekki þannig svarthvítur.“

Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, segir að reynsla hans af samstarfi við Pírata sé ágæt.
Reynslan ágæt Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, segir að reynsla hans af samstarfi við Pírata sé ágæt.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Ósættið stendur flokknum fyrir þrifum

Eiríkur Bergmann, stjórnmálafræðiprófessor við Háskólann á Bifröst, segir merkilegt hversu vel Píratar hafi haldið flugi, flokkur sem í eðli sínu sé andstöðu- og jaðarflokkur en hafi þrátt fyrir það notið mikils fylgis og það lengi. „Öll skapalón í stjórnmálafræði segja að flokkur sem þessi ætti að vera sprunginn í loft upp en hann hefur ekki gert það, þrátt fyrir að fregnir berist af erfiðleikum innan hans. Ósætti innan Pírata stendur samt flokknum fyrir þrifum, þetta er flokkur sem má ekki við neinu slíku. Til þess að virka þurfa Píratar að vera, eða alla vega líta út fyrir að vera, samstíga því þeir eru andstaðan við, og því valkostur, hinn hefðbundna stjórnmálaflokk. Sýni þeir ekki fram á að vera samstíga innan flokks þá er hætt við að þeir tapi trúverðugleika sínum.“

Eiríkur Bergmann stjórnmálafræðiprófessor segir Pírata ekki mega við ósætti innan sinna raða, annars sé hætt við að þeir tapi trúverðugleika sínum.
Mega ekki við ósætti Eiríkur Bergmann stjórnmálafræðiprófessor segir Pírata ekki mega við ósætti innan sinna raða, annars sé hætt við að þeir tapi trúverðugleika sínum.

Stjórnin stendur sterk

Eiríkur segir augljóst að meira en lítill krytur sé milli Pírata og Framsóknarflokksins, sem meðal annars valdi því að óraunhæft sé að ætla að stilla stjórnarandstöðunni upp sem valkosti til að taka við stjórnartaumunum. „Hinir stjórnarandstöðuflokkarnir hafa ekki treyst Pírötum, eða í það minnsta hefur ríkt tortryggni í þeirra garð um hvort þeir séu stjórntækir. Það er þó að ég tel ansi mismunandi milli flokka. Það er auðvitað langlengst á milli Pírata og Framsóknarflokks af þessum stjórnarandstöðuflokkum og hæpið að þessir tveir flokkar geti undir nokkrum kringumstæðum unnið saman.

Stjórnarandstaðan sem heild er því algjörlega ótrúverðugur valkostur til að taka við stjórnartaumunum. Það er helsti styrkur ríkisstjórnarinnar, að stjórnarandstaðan sem heild er óstjórntæk. Þingmenn ríkisstjórnarinnar gera sér glögga grein fyrir þessu og leyfa sér því meiri deilur en oftast hefur verið, bæði milli óbreyttra þingmanna en einnig innan ráðherraliðsins. Það virðist ekki valda henni umtalsverðum vandræðum, þó að það séu auðvitað mál sem þeim mun aldrei takast að hrinda í framkvæmd vegna þess að það er ósætti milli flokkanna um þau. En það hversu ósamstíga stjórnarandstaðan er gerir það að stjórnin stendur í raun sterkum fótum, sterkari en í raun mætti ætla af öllum ytri merkjum.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Að öllu óbreyttu verður þetta endanlegur fjöldi forsetaframbjóðenda

Að öllu óbreyttu verður þetta endanlegur fjöldi forsetaframbjóðenda
Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Kveiks-fíaskóið vandræðalegt fyrir RÚV í ljósi tengsla útvarpsstjóra

Kveiks-fíaskóið vandræðalegt fyrir RÚV í ljósi tengsla útvarpsstjóra
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Snorri og Patrik vekja hneykslun: Konan hugsi um börnin og karlinn um peningana – „Gömlukallaraus í ungum mönnum“

Snorri og Patrik vekja hneykslun: Konan hugsi um börnin og karlinn um peningana – „Gömlukallaraus í ungum mönnum“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þetta er umfjöllunin sem María Sigrún fékk ekki birta í Kveik

Þetta er umfjöllunin sem María Sigrún fékk ekki birta í Kveik