fbpx
Miðvikudagur 01.maí 2024
Fréttir

Mamman harmar mistök sem gerð voru í viðtali við Anitu Briem

Kristjón Kormákur Guðjónsson
Mánudaginn 2. maí 2016 13:45

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Við hjá Mamman.is hörmum þau mistök sem voru gerð í viðtali við Anitu Briem. Við höfum tímabundið tekið greinina úr birtingu meðan á leiðréttingu stendur og biðjum Anitu innilegrar afsökunar. Við drögum af þessu dýrmætan lærdóm,“

segir í skeyti frá lífstílsvefnum Mamman.is þar sem leikkonan Aníta Briem var í ítarlegu viðtali um fæðingarþunglyndi, barneignir og bókina sína Mömmubitar.

Þar var haft beint eftir Anitu:

„Að sjálfsögðu, ég myndi elska að eignast fleiri börn, en ég tel það mjög erfitt fyrir mig að eignast annað barn nema ég fái barnfóstru í fulla vinnu. Ég bara sé það ekki gerast núna því það er búið að vera svolítið erfitt að vera með eitt barn,. Það er sérstaklega erfitt held ég fyrir móður að vera frá börnunum, allavega svona fyrstu tvö til þrjú árin. Held að þau þurfi meira á mömmu sinni að halda en pabba. Það var svolítið sjokk fyrir mig, sérstaklega út af vinnunni, af því ég treysti svo mikið á hugann og á ímyndunaraflið og hjartað og líkamann, að vera allt í einu með hugann stanslaust hjá barninu. Það þurfti að gefa henni að borða og sjá um allar hennar þarfir og allt í einu hafði ég ekki tíma til að fara eitthvað til að fá innblástur. Þetta var rosalega krefjandi fyrir mig og það hafa komið ákveðnir tímapunktar þar sem ég hef virkilega fundið fyrir því að alveg helmingurinn af mér er hjá henni. Mér finnst ég rétt núna vera að endurheimta sjálfa mig. Vissulega er það dásamleg upplifun, það eru algjörir töfrar að fá að upplifa svona en mér fannst þetta líka bara mjög krefjandi sem kvenmaður.“

DV birti hluta af viðtalinu sem birtist á Mamman.is. Vildi Anita ekki kannast við að hafa átt við það að mæður væru mikilvægari en feður á fyrstu æviskeiðum barnsins og birti DV yfirlýsingu frá Anitu undir fréttinni:

„Ég held ekki að börn þurfi meira á mömmum að halda en pöbbum. Að sjálfsögðu ekki!

Ég talaði opinskátt um mitt fæðingarþunglyndi, eitthvað sem reyndist mér gríðarlega erfiður tími, og ég gerði það af því að ég fann alltaf mikla huggun í því að lesa eða heyra um aðrar konur sem voru að ganga í gegnum svipaða hluti. Þá var ég ekki svona ein.

Það sem ég var að tala um í viðtalinu, er hvernig dóttir mín (því ég get bara talað um mína reynslu) hefur alltaf gert meiri kröfur til mín en til pabba síns… Hún vill meiri tíma með mér, fleiri faðmlög, meira af mínu hjarta, tíma og athygli en hjá pabba sínum. Svoleiðis er bara dóttir mín. Hún kvartar meira við mig og hún grætur meira með mér. Og grátur hennar var og er mér mjög erfiður. Sérstaklega þegar fæðingarþunglyndið stóð sem hæst. Ég græt oft þegar hún grætur. Það er bara svoleiðis.

Svo það var það sem ég var að tala um þarna. Ekki að mömmur séu mikilvægari en pabbar. Það myndi ég aldrei láta út úr mér enda er það bara djöfulsins bull og vitleysa.“

Í skeyti frá Auði Evu, ritstjóra mamman.is, til DV segir:

„Við erum lífsstílsvefur fyrir konur og viljum fjalla um jákvæða hluti, vera með fræðandi greinar og vonandi opna umræðu á málefnum sem hafa um árabil verið álitin tabú, ekki mátt ræða eða einfaldlega ekki verið rædd vegna skammar og ótta við álit annarra.

Konur hafa jafnvel öldum saman borið harm sinni í hljóði, bugaðar af fæðingarþunglyndi, ófrjósemi, missi og/eða annars konar vanlíðan. Þær hafa ekki getað deilt sínum upplifunum með neinum og fundist þær vera einar í heiminum. Við viljum breyta því og opna á þessa umræðu, kveðja skömmina, sýna samkennd og skilning.

Því miður er æsifréttamennskan aldrei langt undan og lýsir sér oft þannig að setningar eru slitnar úr samhengi og dregin upp neikvæð mynd af einhverju sem á að vera gott og vinsamlegt. Við megum ekki láta það á okkur fá og ætlum að halda áfram að gera góða og jákvæða hluti. Það er svo mikil vakning í málefnum kvenna og við konur erum mikill innblástur fyrir hverja aðra.

Ég segi því bara að lokum áfram konur! Ást&friður“.

DV hafnar því að um ómaklega umfjöllun eða æsifréttamennsku hafi verið að ræða. DV vitnaði í beina tilvitnun viðmælenda miðilsins. Ritstjóri mamman.is hefur nú greint frá því að mistök hafi átt sér stað hjá miðlinum og lagfærir DV fréttina í samræmi við það.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt