fbpx
Miðvikudagur 01.maí 2024
Fréttir

Verja Sigurð Einarsson: Engin ánægja að sjá fólk hundelt og niðurlægt

Guðmundur Andri, Hannes og Pétur koma Sigurði til varnar

Kristjón Kormákur Guðjónsson
Föstudaginn 29. apríl 2016 13:10

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég er svo undarlegur að ég hef enga ánægju af því að sjá fólk hundelt og niðurlægt, hvað svo sem því hefur orðið á,“ skrifar Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur um mál Sigurðar Einarssonar. Myndskeið sem birt var á RÚV í gær vakti mikla athygli. Í myndbandinu kemur fram að sá sem tók það upp hafi komið við í Borgarfirðinum „eftir vel heppnaða jeppaferð á Vestfirði“. Svo virðist vera sem til orðaskipta hafa komið milli Sigurðar og fólks sem ætlaði að fara að húsinu. Sigurður biður fólkið um að fara og segir orðrétt:

„Farðu svo ég þurfi ekki að berja þig.“

Sigurður er ekki skráður fyrir húsinu. Hann var eigandi þess til ársins 2011. Síðan þá hefur eignarhaldið verið á huldu en félag erlendis er skráð fyrir glæsihýsinu. Sigurður var mikið gagnrýndur á samfélagsmiðlum eftir að allir miðlar landsins sögðu fréttir af myndskeiðinu en hann er nýkominn á Vernd eftir að hafa afplánað fangelsisdóm vegna Al-Thani málsins svokallaða. Hann var dæmdur í fjögurra ára fangelsi. Freyr Einarsson, upplýsingafulltrúi, Sigurðar sagði í samtali við Vísi að fólk hefði verið að mynda inn um rúður á húsinu og um innrás á friðhelgi einkalífs hefði verið að ræða.

Sjá nánar: Sigurður Einarsson hótaði barsmíðum: „Farðu svo ég þurfi ekki að berja þig“

Eftir að myndbandið var birt á vef Ríkisútvarpsins vildu sumir meina að með þessu væri Sigurður að brjóta skilorð. Hannes Hólmsteinn Gissurarson gagnrýndi RÚV harkalega og sagði að fréttamenn væru á villigötum og um ósmekklega frétt hefði verið að ræða.

Hafa fjölmargir tjáð sig um það, þar á meðal Guðmundur Andri Thorsson sem fjallar um myndskeiðið á Facebook-síðu sinni. Hafa fjörugar umræður spunnist um birtingu þess.

„Við höfum dómskerfi sem virkar furðu vel þótt verjendur reyni að grafa undan því. Sigurður Einarsson er dæmdur og brennimerktur, útlægur og forsmáður. Hann á vonandi eftir að ná sér á strik og jafnvel gera eitthvað þarflegt þegar fram líða stundir. Eða ekki. En óþarfi að skrattast svona endalaust í manninum,“ segir Guðmundur Andri og bætir við á öðrum stað: „ …myndskeið í dreifingu þar sem hann er að reka fólk frá því að liggja á gluggum í sumarhúsi og það tala allir eins og hann hafi ráðist inn í Pólland.“

Sjá nánar: Myndbandið af Sigurði ekki lengur á Youtube:

Lára Hanna Einarsdóttir er til svars og segir Sigurð hafa stolið fúlgum og aldrei sýnt iðrun eða beðist afsökunar. „Sigurður á auð sem hann getur lifað hátt á til dauðadags – á kostnað annarra. Ekkert bendir til þess að honum finnist það ekki sjálfsagt og eðlilegt.“

Ingimar Karl Helgason, fyrrverandi ritstjóri, tekur undir með Láru Hönnu og segir: „Við sem þjóð erum marin á báðum kinnum eftir löðrunga og högg þessa manns. Enginn fær fyrirgefningu fyrr en hann sýnir iðrun.“

Guðmundur Andri svarar: „Rétt að árétta: Enginn þarf að fyrirgefa Sigurði Einarssyni hans margvíslegu syndir, refjar og ránskap. Ég finn hins vegar alltaf til mótþróa þegar hópur snýst gegn einstaklingi. Þar með er ég ekki „meðvirkur“ eins og hér hefur sést. Þvert á móti. Ég er alltaf mótvirkur.“

Pétur Gunnarsson, blaðamaður, fjallar einnig um myndbandið og segir fólkið vera í leyfisleysi á landi sem sé í umsjón Sigurðar. Ekki sé um hótun að ræða. : „ … ef einhver veður inn á lóð hjá þér eða sumarbústað eða stað þar sem hún ert með umsjón og er með leiðindi þá geturðu sagt honum að fara og – það er bara þannig, líka Jón Ásgeir, Björgólfur og Sigurður Einarsson. Það mundi aldrei nokkur maður ákæra eða dæma fyrir þetta sem refsiverða hótun sem vekur öðrum manni ótta um líf, heilbrigði og velferð.“

Myndbandið hefur verið fjarlægt af Youtube eftir að Freyr Einarsson, upplýsingafulltrúi, Sigurðar, lagði fram kvörtun. Myndbandið dúkkaði þó fljótlega upp á hinum ýmsu síðum á netinu og mun líklega þrátt fyrir kvartanir upplýsingafulltrúans vera aðgengilegt á netinu í nánustu framtíð.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt