fbpx
Fimmtudagur 02.maí 2024
Fréttir

Steinar gætir hagsmuna ríkisins í söluferli Arion banka

Steinar Þór Guðgeirsson eftirlitsmaður stjórnvalda inn í Kaupþingi – Lífeyrissjóðir gætu senn sett fram tilboð

Ritstjórn DV
Föstudaginn 1. apríl 2016 06:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fyrrverandi formaður skilanefndar Kaupþings mun hafa það hlutverk að gæta hagsmuna íslenska ríkisins samhliða söluferli á 87% hlut Kaupþings í Arion banka. Samkvæmt heimildum DV hafa stjórnvöld þannig fengið hæstaréttarlögmanninn Steinar Þór Guðgeirsson, sem var formaður skilanefndar Kaupþings á árunum 2008 til 2012, til að vera sérstakur eftirlitsmaður inni í Kaupþingi og fylgjast með söluferlinu og tryggja að ekki verði gengið á hagsmuni ríkisins. Steinar hefur unnið sem ráðgjafi fyrir Seðlabanka Íslands undanfarin misseri og situr meðal annars í stjórnum margra félaga sem voru framseld til ríkisins í byrjun þessa árs sem hluti af stöðugleikaframlagi kröfuhafa gömlu bankanna.

Íslensk stjórnvöld eiga gríðarlegra hagsmuna að gæta við sölu á Arion banka vegna afkomuskiptasamnings sem gerður var við kröfuhafa slitabúsins í fyrra. Ef hlutur Kaupþings verður seldur í samræmi við bókfært eigið fé Arion banka í lok síðasta árs þá mun ríkið fá um 113 milljarða króna í sinn hlut. Söluandvirðið sem rennur til ríkisins verður hins vegar aðeins ríflega 90 milljarðar ef hluturinn selst á gengi sem nemur 0,7 miðað við bókfært eigið fé en það er núna tæplega 193 milljarðar. Fyrir utan 87% eignarhlut Kaupþings þá á ríkið sem kunnugt er 13% hlut í bankanum.

Tilboð í vændum

Að fá inn sérstakan eftirlitsmann inn í Kaupþing til að fylgjast með söluferlinu, þar sem hann mun geta krafist ítarlegra upplýsinga í tengslum við fyrirhugaða sölu á Arion banka, var á meðal þeirra skilyrða sem voru sett kröfuhöfum Kaupþings þegar þeir samþykktu stöðugleikaskilyrði stjórnvalda. Eins og upplýst var um í DV í nóvember í fyrra þá fóru stjórnvöld einnig fram á skilmála sem veitir þeim heimild til forkaupsréttar á 87% hlut Kaupþings ef til stendur að selja hann á verði sem er umtalsvert lægra en bókfært eigið fé bankans. Þannig er talið nær útilokað, samkvæmt heimildum DV, að stjórnvöld myndu sitja aðgerðarlaus hjá ef Kaupþing hyggst til dæmis selja hlutinn til fjárfesta á genginu 0,6 til 0,7 miðað við eigið fé Arion banka.

Afar ólíklegt verður þó að telja að það muni koma til þess að stjórnvöld telji nauðsynlegt að nýta sér slíkt forkaupsréttarákvæði. Ítrekað hefur komið fram í fjölmiðlum að hópur lífeyrissjóða, sem er leiddur af stærstu lífeyrissjóðum landsins, hafi á undanförnum mánuðum átt í óformlegum viðræðum við fulltrúa slitastjórnar Kaupþings um kaup á hlut í Arion banka. Væntingar eru um að skriður komist á söluferlið nú þegar ný stjórn hefur tekið við Kaupþingi og fjármálaráðgjafar lífeyrissjóðanna, ráðgjafafyrirtækið Icora Partners, hafa fengið aðgang að rafrænu gagnaherbergi þar sem finna má ítarlegar upplýsingar um fjárhag og rekstraráætlanir bankans næstu árin. Þannig vonast lífeyrissjóðirnir til þess, samkvæmt heimildum DV, að hægt verði að koma fram með tilboð í bankann í kringum næstu mánaðamót.

Steinar Þór Guðgeirsson.
Ráðgjafi Seðlabankans Steinar Þór Guðgeirsson.

Selji 45% hlut

Rétt eins og greint var frá í ViðskiptaMogganum um miðjan síðasta mánuð er áformað að lífeyrissjóðirnir kaupi 45% hlut í Arion banka. Þá hafa sjóðirnir – undir forystu Lífeyrissjóðs verslunarmanna, Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og Gildi lífeyrissjóðs – þrýst á um að verði þau kaup að veruleika þá muni Kaupþing jafnframt í kjölfarið selja 5% hlut í útboði til almennings. Kaupþing hefði síðan nærri þrjú ár til að selja þann 37% hlut sem eftir stæði til annarra fjárfesta, að öllum líkindum fag- og einkafjárfesta.

Ekki þarf að koma á óvart að stjórn Kaupþings kjósi að selja 45% hlut í bankanum í fyrstu atrennu en sé tekið mið af bókfærðu eigin fé Arion banka gæti hluturinn selst á um 87 milljarða króna. Þeirri fjárhæð yrði þá ráðstafað til að greiða upp að fullu 84 milljarða veðskuldabréf sem Kaupþing gaf út til stjórnvalda og þannig komast hjá því að þurfa að greiða fyrstu afborgun af skuldabréfinu. Er bréfið til þriggja ára, í samræmi við þann tímaramma sem hluthafar Kaupþings hafa til að finna kaupanda að 87% hlutnum í Arion banka, og ber 5,5% vexti, eða sem nemur 4,6 milljörðum á ári. Þrátt fyrir að ekki liggi endanlega fyrir á hvaða verði hluturinn yrði seldur til lífeyrissjóðanna þá er talið líklegt að þeir þurfi að greiða fyrir hann miðað við gengi sem er mjög nálægt bókfærðu virði bankans.

Ný stjórn tekin við

Söluferlið á hlut Kaupþings í Arion banka er núna á forræði nýrrar stjórnar félagsins sem tók til starfa 16. mars síðastliðinn. Stjórnin er skipuð þeim Óttari Pálssyni, hæstaréttarlögmanni og einum eiganda LOGOS, Alan J. Carr, bandarískum lögmanni og ráðgjafa, Jóhannesi Rúnari Jóhannssyni, formanni slitastjórnar, og Paul Copley, endurskoðanda og einum eigenda PwC í London. Þá mun Bandaríkjamaðurinn John P. Madden, sem hefur stýrt framtakssjóðum hjá Arcapita Bank í London, starfa náið með Kaupþingi við söluferlið. Var hann fenginn til liðs við Kaupþing nýlega fyrir tilstuðlan Keiths Magliana, sjóðsstjóra hjá vogunarsjóðnum Taconic Capital, áhrifamesta kröfuhafa Kaupþings.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt