fbpx
Miðvikudagur 01.maí 2024
Fréttir

Krefur Baltasar um svör vegna gjaldþrota félags

Framleiðslufélag Djúpsins fór í þrot – „Ósvífin krafa,“ segir leikstjórinn

Ritstjórn DV
Föstudaginn 16. desember 2016 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Skiptastjóri félags í eigu Baltasars Kormáks hefur farið fram á að leikstjórinn og aðrir aðstandendur Djúpsins svari því hvernig tekjum af kvikmyndinni var ráðstafað. Fór skiptastjórinn fram á að þau svöruðu spurningum hans fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur næsta þriðjudag en óvíst er hvort af því verði.

Baltasar segir félagið hafa farið í gjaldþrot vegna „ósvífinnar kröfu“ kranafyrirtækis sem félag hans var dæmt til að greiða alls tæpar átta milljónir króna. Leikstjórinn vísar á bug að ekki hafi verið rétt staðið að ráðstöfun á tekjum Djúpsins.

„Við lentum í því í Djúpinu að það sex- eða sjöfaldaðist reikningur frá ákveðnu fyrirtæki og það kom í ljós að öllum bellibrögðum var beitt til að hækka þennan reikning. Þeir gerðu síðan kröfu í félagið og það er því miður ekkert í því lengur. Ef þeir vilja taka það í gegnum gjaldþrot þá er það þeirra en við vorum tilbúnir að semja við þá og ég ætlaði að greiða það og koma með þann pening sjálfur. En fyrst þeir voru svona ósvífnir á endanum þá ákváðum við að láta þetta fara þessa leið,“ segir Baltasar.

Kvikmyndin fjallar um þrekvirki Guðlaugs Friðþórssonar sem synti sex kílómetra í land til að bjarga lífi sínu þegar Hellisey VE sökk í mars 2014.
Djúpið Kvikmyndin fjallar um þrekvirki Guðlaugs Friðþórssonar sem synti sex kílómetra í land til að bjarga lífi sínu þegar Hellisey VE sökk í mars 2014.

Funduðu í gær

Félagið Andakt ehf. var stofnað árið 2010 utan um framleiðslu Djúpsins sem var frumsýnd tveimur árum síðar. Samkvæmt nýjasta ársreikningi félagsins, sem er fyrir árið 2014, er félagið í eigu Sagnar ehf. Baltasar á 12 prósenta hlut í Sögn í eigin nafni og annað hlutafé þess í gegnum félagið Langbrók Film ehf. Leikstjórinn er skráður stjórnarformaður Andaktar en Agnes Johansen, framleiðandi hjá Sögn, framkvæmdastjóri þess. Félagið var rekið með 47 milljóna hagnaði árið 2014 en skuldaði þá 132 milljónir umfram eignir sem námu 50 þúsund krónum. Tveimur árum síðar var félagið eins og áður segir úrskurðað gjaldþrota og hæstaréttarlögmaðurinn Gunnar Ingi Jóhannsson skipaður skiptastjóri.

„Ég sem skiptastjóri hef litið svo á að félagið hafi verið framleiðandi myndarinnar og eigi öll réttindi yfir henni. Þar á meðal rétt til tekna, dreifingar og sýningar. Þessu er móðurfélagið ósammála og því hef ég óskað eftir gögnum frá móðurfélaginu um tekjur sem hafa komið inn af verkefninu og hvernig þeim hefur verið ráðstafað og samningar sem liggja að baki því að það eigi rétt á þessum tekjum. Eftir að hafa reynt árangurslaust í þrjá mánuði að afla þessara gagna þá einfaldlega óskaði ég eftir því með heimild í gjaldþrotalögum að fyrirsvarsmenn félagsins yrðu færðir til skýrslugerðar fyrir héraðsdómi,“ segir Gunnar Ingi í samtali við DV.

Aðstandendur Djúpsins eiga að mæta fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur næsta þriðjudag en Gunnar Ingi segir óvíst hvort af því verði. Hann hafi fundað með þeim í gær, fimmtudag, og fengið gögn og aðrar upplýsingar sem hann sé nú að skoða.

Tveir kröfuhafar

Sögn ehf. og fyrirtækið Á.B. Lyfting eru einu kröfuhafar Andaktar. Gjaldþrota félagið var í maí 2015 dæmt til að greiða kranafyrirtækinu rúmar fjórar milljónir króna vegna leigu á krönum sem notaðir voru við tökur á Djúpinu í Helguvík á Reykjanesi. Kranarnir voru teknir á leigu árið 2010 og sendi fyrirtækið reikning upp á 8,2 milljónir króna. Aðstandendum Djúpsins þótti krafan of há og töldu sig einungis eiga að greiða 3,5 milljónir sem lagðar voru inn á fyrirtækið mánuði síðar. Héraðsdómur Reykjavíkur lækkaði kröfuna í 7,7 milljónir.

„Okkur datt ekki í hug að þetta myndi nást í gegn, þetta var svo ósvífin krafa, að við tókum þetta ekki með í þeirri skýrslu sem við skiluðum inn til iðnaðarráðuneytisins vegna endurgreiðslunnar frá ríkinu. Varðandi greiðslur til Andaktar þá er þetta gert svona í öllum tilfellum og það er móðurfélagið sem við erum að reka og það er ýmis kostnaður og annað sem Sögn er búin að leggja út í og þarf að greiða til baka. Sögn setti síðan fram sína kröfu í búið fyrst það var farið fram á skipti. Mér finnst ljóst fyrir hvern þessi skiptastjóri er að vinna og hann gengur greinilega hart fram í þessu máli,“ segir Baltasar og heldur áfram.

„Fyrir utan gjaldþrot sem átti sér stað í tengslum við A Little Trip to Heaven, sem ég átti 25 prósent í, hef ég alltaf staðið við allt sem að ég hef sagt. Þar var einungis um lánastofnanir að ræða sem töpuðu peningum, ég er búinn að framleiða kvikmyndir í yfir 20 ár.“

Uppfært kl. 13.00
Baltasar Kormákur hafði samband við DV og vildi koma eftirfarandi á framfæri:

„Svona rukka þeir kúnnana sína og hafa gert síðustu ár,“ segir hann og á þar við Á.B. Lyftingu. „Þeir fara með menn fyrir rétt aftur og aftur og kunna á dómskerfið.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt