fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
Fréttir

Ingibjörg Pálma kaupir í Högum fyrir um 600 milljónir

Félagið SM Investments eignast 1% hlut – Sjö ár síðan fjölskyldan missti frá sér verslunarveldið

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 22. nóvember 2016 07:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Félag í eigu Ingibjargar Pálmadóttur, stærsta hluthafa fjölmiðlafyrirtækisins 365 og eiginkonu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, eignaðist fyrir skemmstu tæplega eins prósents hlut í smásölurisanum Högum. Kaupin voru gerð í gegnum nýstofnað fjárfestingarfélag, SM Investments ehf., en samkvæmt heimildum DV er eini hluthafi þess annað félag á vegum Ingibjargar. Miðað við núverandi gengi bréfa Haga er eignarhlutur SM Investments metinn á nærri 600 milljónir króna.

Jón Ásgeir og fjölskylda voru sem kunnugt er aðaleigendur Haga, sem rekur meðal annars verslanir undir merkjum Bónuss og Hagkaupa, en fjölskyldan missti verslunarveldið úr sínum höndum fyrir um sjö árum þegar Arion banki yfirtók eignarhaldsfélagið 1998 sem átti þá um 95,7% hlut í Högum. Bankinn seldi síðar hlut sinn í félaginu til hóps einkafjárfesta og lífeyrissjóða og í kjölfarið voru Hagar skráðir í Kauphöll Íslands. Eigendur Haga í dag eru að langstærstum hluta íslenskir lífeyrissjóðir, með samanlagt meira en 50% hlut í fyrirtækinu, en enga einkafjárfesta er að finna á lista yfir tuttugu stærstu hluthafa félagsins.

Einn stjórnarmaður

Ingibjörg vildi ekkert tjá sig um kaup fjárfestingarfélagsins í Högum. Eini stjórnarmaður SM Investments er Jón Skaftason, lögfræðingur og samstarfsmaður Jóns Ásgeirs um nokkurra ára skeið, en hann settist í stjórn félagsins 6. október síðastliðinn. SM Investments er með skráð lögheimili á Laugavegi 1b ásamt fjölmörgum öðrum félögum á vegum Ingibjargar. Jón starfar fyrir fjárfestingarfélagið South Molton Capital, áður Guru Capital, og hefur átt sæti í stjórnum breskra fyrirtækja, meðal annars Murdock Limited, félags sem rekur keðju rakarastofa í Lundúnum, ásamt Jóni Ásgeiri.

Samkvæmt gögnum sem var skilað til bresku fyrirtækjaskrárinnar í byrjun þessa árs voru félagið Guru Invest S.A. og Jón Ásgeir hluthafar í South Molton Capital. Fram kom í umfjöllun Kjarnans fyrr á árinu, byggt á gögnum sem lekið var frá lögfræðistofunni Mossack Fonseca, að Guru Invest væri með heimilisfesti í Panama og alfarið í eigu Ingibjargar. Þá hafi Jón Ásgeir um tíma verið skráður með prókúru í félaginu og tengst mörgum verkefnum sem það hefur fjármagnað á Bretlandi og Íslandi eftir fjármálaáfallið 2008. Samkvæmt upplýsingum DV kemur panamska félagið Guru Invest hins vegar ekki að fjárfestingu SM Investments í Högum.

Lilja á 0,33% í Högum

Kaup Ingibjargar í Högum eru ekki af þeirri stærðargráðu að þau hafi skilað henni á lista með tuttugu stærstu hluthöfum sem er birtur vikulega á vefsíðu félagsins. Samkvæmt lista yfir alla hluthafa í Högum í síðustu viku, sem DV hefur séð, kemur hins vegar fram að SM Investments á 11 milljónir hluta í smásölurisanum. Félagið fer því með 0,94% eignarhlut sem þýðir að það er hópi þrjátíu stærstu hluthafa fyrirtækisins. Þá á félagið Minna Hof ehf., sem er í eigu Lilju Pálmadóttur, systur Ingibjargar, jafnframt 0,33% hlut í Högum. Ingibjörg og Lilja eru dætur Pálma Jónssonar, stofnanda Hagkaups.

Jón Ásgeir og fjölskylda misstu forræði yfir Högum síðla árs 2009 þegar Nýja Kaupþing, forveri Arion banka, eignaðist meirihluta í 1998 ehf., móðurfélagi Haga, og fékk meirihluta í stjórn félagsins. Í kjölfarið voru uppi áform um gefa fjölskyldunni, en Jóhannes Jónsson, stofnandi Bónuss, var þá starfandi stjórnarformaður Haga, tækifæri til að koma með nýtt hlutafé inn í reksturinn til að endurfjármagna þrjátíu milljarða króna skuld 1998 ella myndi bankinn taka fyrirtækið yfir. Tilboði fjölskyldunnar var hins vegar ekki tekið og þess í stað ákvað bankinn sem fyrr segir að selja 44% hlut í félaginu til innlendra kjölfestufjárfesta og skömmu síðar var 30% hlutur seldur í almennu hlutafjárútboði í árslok 2011. Jón Ásgeir gagnrýndi ákvörðun bankans á sínum tíma og sagði í samtali við fréttastofu Stöðvar 2 í febrúar 2011 að svo „virðist sem peningar hafi ekki haft forgang hjá Arion mönnum heldur virðist forgangsröðunin hafa verið að koma stofnendum Bónus út úr Högum.“

Hagar kaupa Lyfju

Fjárhagsstaða Haga, en markaðsvirði félagsins er um 62 milljarðar króna, er afar sterk um þessar mundir og hefur góð afkoma á undanförnum árum meðal annars verið nýtt til að greiða hratt niður skuldir félagsins. Í lok síðasta rekstrarárs, sem lauk í febrúar á þessu ári, námu vaxtaberandi skuldir smásölurisans aðeins rúmlega 700 milljónum króna og höfðu þá lækkað um nærri átta milljarða króna á aðeins fjórum árum. Rekstrartekjur Haga voru tæplega 80 milljarðar króna í fyrra og eiginfjárhlutfall fyrirtækisins er um 55%. Gengi bréfa í félaginu hafa hækkað um liðlega 18% það sem af er ári en á sama tíma hefur Úrvalsvísitala Kauphallarinnar lækkað um 9%.

DV greindi frá því á þriðjudaginn í liðinni viku að Hagar hefðu átt hæsta skuldbindandi kauptilboð í 100% hlut ríkisins í Lyfju og að fyrirtækjaráðgjöf Virðingar, sem hefur umsjón með söluferlinu, hefði því ákveðið að ganga til kaupviðræðna við smásölurisann. Í tilkynningu sem Hagar sendu til Kauphallarinnar tveimur dögum síðar staðfesti félagið að það hefði undirritað samning um kaup á öllu hlutafé í Lyfju þar sem lyfjakeðjan væri metin á um 6,7 milljarða króna í viðskiptunum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Lögregla kölluð út vegna tjaldbúða í miðborginni

Lögregla kölluð út vegna tjaldbúða í miðborginni
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Fordæmalaus staða gæti komið upp á gosstöðvunum á Reykjanesskaga – „Þetta er fyrsta skiptið sem við sjáum svona“

Fordæmalaus staða gæti komið upp á gosstöðvunum á Reykjanesskaga – „Þetta er fyrsta skiptið sem við sjáum svona“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Jóhann hlaut dóm í héraði – Leigði ólöglega brunagildru í Þverholti til búsetu og stofnaði lífum í hættu

Jóhann hlaut dóm í héraði – Leigði ólöglega brunagildru í Þverholti til búsetu og stofnaði lífum í hættu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Stjórnarflokkarnir eru að koma sér upp þægilegum merkimiðum þegar styttist í kosningar

Ólafur Þ. Harðarson: Stjórnarflokkarnir eru að koma sér upp þægilegum merkimiðum þegar styttist í kosningar
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Næsta skref – byltingakenndar breytingar

Næsta skref – byltingakenndar breytingar