fbpx
Sunnudagur 19.maí 2024
Fréttir

„Biðin er erfið“

Fjölskyldur frá Makedóníu, Írak og Íran, sem sækjast eftir hæli hérlendis, teknar húsi – „Þetta loftslag hentar mér vel“

Björn Þorfinnsson
Laugardaginn 16. janúar 2016 08:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Það er miklu betra að vera á Íslandi en á Ítalíu,“ segir níu ára drengur frá Írak, sem hefur verið á Íslandi í eitt ár. Málefni hælisleitenda eru Íslendingum, sem og heimsbyggðinni, hugleikin enda eru þjóðflutningarnir, ef svo mætti kalla flóttamannastrauminn sem nú stendur yfir frá Miðaustur-löndum, eitt mest aðkallandi vandamál samtímans. Fjöldi þeirra sem sóttu um alþjóðlega vernd hérlendis árið 2015 meira en tvöfaldaðist frá árinu á undan og talið er að þróunin verði áfram á þann veg.

Bið upp á von og óvon

Fá mál hafa hlotið jafn einlæga athygli hérlendis og barátta tveggja albanskra fjölskyldna fyrir hæli undir lok árs. Það voru ekki síst yngstu meðlimir fjölskyldnanna, Arjan og Kevi, sem unnu hug og hjörtu þjóðarinnar og fréttaljósmynd af þeim síðastnefnda skipti sköpum í því samhengi. Báðir voru drengirnir langveikir og svo fór að fjölskyldurnar hlutu ríkisborgararétt hérlendis eftir miklar sviptingar. Það var í raun fordæmalaus ákvörðun því samkvæmt upplýsingum DV höfðu allir Albanir sem sótt höfðu um hæli hérlendis verið sendir til síns heima, sem er talsverður fjöldi enda eru Albanir í stórum meirihluta þeirra sem hér sækja um hæli. Sama dag og von var á fjölskyldunum í flugi frá Berlín fór blaðamaður DV á stúfana ásamt ljósmyndara og heimsótti nokkrar fjölskyldur í Reykjanesbæ sem eiga þá ósk heitasta að fá að dveljast hér áfram en bíða í von og óvon um hver örlög þeirra verða.

Dvelja í Draumahúsinu

Fyrsti viðkomustaður var Fit Hostel, sem um árabil hefur verið einn umtalaðasti dvalarstaður hælisleitenda á Íslandi. Þar fengust þær upplýsingar að samstarfinu við bæjaryfirvöld hefði lokið fyrir um sex mánuðum og engir hælisleitendur dveljist nú á gistiheimilinu. Næsti viðkomustaður var lögreglustöð bæjarins en þar kom lögreglumaður af fjöllum og benti okkur aftur á Fit. Enga hjálp var þar að hafa. Loks aðstoðaði hjálpsamur bæjarbúi og vísaði okkur á hús sem í daglegu tali nefnist Draumahúsið. Þar knúðum við dyra og brosandi maður tekur á móti okkur og býður okkur inn til sín.

Ánægður með loftslagið

Íbúðin er snyrtileg en stíllinn er mínímalískur, sennilega af nauðsyn. Hann heitir Jetmir Nedjmedini og er makedónískur ríkisborgari en af albönsku bergi brotinn. „Það er eitt ár liðið og biðin er erfið,“ segir Jetmir og segist óánægður með seinagang stjórnvalda sem og forsendurnar sem yfirvöld gefi sér. „Það er alltof mikið horft á þjóðernið og fólki vísað frá miskunnarlaust án þess að bakgrunnur hvers og eins sé kannaður,“ segir Jetmir. Hann fékk upphaflega synjun en áfrýjaði þeirri niðurstöðu og er bjartsýnn á að því verði snúið við þar sem von sé á mikilvægum gögnum frá heimalandinu. Þótt hið opinbera ferli fari í taugarnar á Jetmir þá segist hann vera hugfanginn af Íslandi og Íslendingum, sérstaklega elski hann kuldann. „Þetta loftslag hentar mér vel,“ segir hann brosandi og upplýsir blaðamann um að hann hafi sótt grunnnámskeið í íslensku og vilji gjarnan fara í frekara nám. „Það er mikilvægt að tala tungumálið til þess að aðlagast samfélaginu. Það viljum við gjarnan gera og helst vil ég byrja að vinna sem fyrst til þess að skila mínu,“ segir Jetmir, sem er menntaður smiður og umferðartæknir (e. traffic technician).

„Það er alltof mikið horft á þjóðernið og fólki vísað frá miskunnarlaust án þess að bakgrunnur hvers og eins sé kannaður“
Jetmir Nedjmedini „Það er alltof mikið horft á þjóðernið og fólki vísað frá miskunnarlaust án þess að bakgrunnur hvers og eins sé kannaður“

Mynd: Þormar Vignir Gunnarsson

Forboðin ást

Í sömu andrá kemur unnusta hans fram úr svefnherberginu, hún heitir Idajet Zahiri. Þau skötuhjúin lögðu á flótta út af forboðinni ást. „Ég er fráskilinn og á þrjú börn með barnsmóður minni. Það var ekki vel séð þegar við Idajet urðum ástfangin því hún hefur ekki verið gift áður,“ segir Jetmir. Hann segir að þau hafi neyðst til þess að flýja land af ótta við hefndaraðgerðir fjölskyldu fyrrverandi eiginkonu Jetmir. „Við eigum von á barni saman,“ segir Jetmir og ljómar af gleði. „Það er ekki mikið annað við að vera í þessari endalausu bið,“ segir hann og brosir kankvís. Líkurnar eru hins vegar hinum verðandi foreldrum ekki í hag, hælisleitendum frá Makedóníu, sem voru um 7% þeirra sem sóttu um hæli á síðasta ári, er nánast í öllum tilvikum snúið við til síns heima.

Idajet og Jetmir hafa dvalið um eitt ár hérlendis og eiga von á sínu fyrsta barni saman.
Forboðin ást Idajet og Jetmir hafa dvalið um eitt ár hérlendis og eiga von á sínu fyrsta barni saman.

Mynd: Þormar Vignir Gunnarsson

Óttast myndatöku

Á móti Jetmir og Idajet býr par frá Íran. Þau koma glaðleg til dyra og koma færandi hendi með rúsínur og valhnetur. Þau tala aðeins persnesku og því fara samskiptin fram með brosum og fingrabendingum. Þau ná að koma blaðamanni í skilning um að þau hafi dvalið hérlendis í þrjá mánuði og ástæða þess að sækja hér um hæli er einnig sú að samband þeirra er forboðið. Þeim þykir auðsýnilega leitt að neita myndatöku en af látbragði þeirra má skilja að slíkt gæti haft afleiðingar fyrir þau. Miðað við forsendur Útlendingastofnunar er einnig ólíklegt að þau hljóti náð fyrir augum stofnunarinnar.

Flúðu ISIS

Á efstu hæð fjölbýlishússins býr stórfjölskylda frá Kúrdistan í Írak sem dvalið hefur hér á landi í eitt ár. Heimili þeirra er ákaflega fallegt og þau hafa komið sér merkilega vel fyrir. Fjölskyldufaðirinn, Hassan Abdullah, var lögreglumaður í heimalandi sínu og sýnir okkur hróðugur mynd af sér í fullum skrúða. Hann talar aðeins móðurmál sitt. Hann kemur þó því til skila að hann hafi flúið land af ótta við hryðjuverkasamtökin ISIS og þaðan hafi fjölskyldan hrakist til Ítalíu og þaðan til Íslands. Hassan og eiginkona hans eiga fjögur börn og öll eru þau sest á skólabekk hérlendis, nánar tiltekið í Myllubakkaskóla.

Hefur náð ótrúlega góðum tökum á íslenskunni á stuttum tíma.
Fallah Hefur náð ótrúlega góðum tökum á íslenskunni á stuttum tíma.

Mynd: Þormar Vignir Gunnarsson

Lærði góða íslensku á tæpu ári

Sá yngsti heitir Fallah og er níu ára gamall. Hann er veikur heima þennan daginn og kemur fram á náttfötunum og fylgist forvitinn með hinum óvæntu gestum. Í ljós kemur að hann talar ótrúlega góða íslensku eftir svo stuttan tíma hérlendis. „Það er mjög gaman í skólanum og ég er búinn að eignast þar vini,“ segir sá stutti með blik í auga. „Það er miklu betra að vera á Íslandi en á Ítalíu,“ segir Fallah og faðir hans kinkar alvarlegur kolli því til staðfestingar. Þeir segja erfitt að venjast kuldanum en þótt þeim líði vel hér segjast feðgarnir báðir sakna heimahaganna. Blaðamaður gerir tilraun til þess að fá Fallah til að túlka fyrir sig hver staða fjölskyldunnar er gagnvart Útlendingastofnun en fer þar með út fyrir íslenskukunnáttu drengsins sem horfir spurnaraugum á blaðamann. Hassan nær þó að koma því til skila að hann sé bjartsýnn á að fá dvalarleyfi hérlendis. Þar sem fjölskyldan kemur frá stríðshrjáðu svæði þá eru þau líklegust af viðmælendum DV þennan daginn til þess að hljóta náð fyrir augum yfirvalda. Húsmóðirin ber fram rjúkandi kaffi sem við drekkum saman í kyrrð og ró áður en komið er að kveðjustund.

Hassan og Fallah eru ánægðir með dvöl sína hérlendis þótt þeir sakni heimahaganna.
Feðgar Hassan og Fallah eru ánægðir með dvöl sína hérlendis þótt þeir sakni heimahaganna.

Mynd: Þormar Vignir Gunnarsson

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Rúnar Hroði gefst ekki upp: „Ég ætla að fara með þetta alla leið“

Rúnar Hroði gefst ekki upp: „Ég ætla að fara með þetta alla leið“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Kristín nefnir algeng mistök við fasteignakaup og hvernig hægt er að forðast þau

Kristín nefnir algeng mistök við fasteignakaup og hvernig hægt er að forðast þau
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Breska ríkið fjármagnar rannsókn á vindmyllum á hafi úti við Ísland – Fyrsta vettvangsferðin í ágúst

Breska ríkið fjármagnar rannsókn á vindmyllum á hafi úti við Ísland – Fyrsta vettvangsferðin í ágúst
Fréttir
Fyrir 3 dögum

„Enginn getur nefnt þetta skelfilega nafn án þess að líta um öxl til að fullvissa sig um að enginn heyri“

„Enginn getur nefnt þetta skelfilega nafn án þess að líta um öxl til að fullvissa sig um að enginn heyri“