fbpx
Þriðjudagur 07.maí 2024
Fókus

Katrín hefur ferðast til 197 landa: „Ég kann að meta frelsið og einveruna“

Ævintýrakonan Katrín Sif Einarsdóttir hefur ferðast til 197 landa þrátt fyrir ungan aldur

Björn Þorfinnsson
Föstudaginn 30. desember 2016 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Óhætt er að segja að líf Katrínar Sifjar Einarsdóttur sé ævintýri líkast. Þrátt fyrir ungan aldur er hún líklega einn víðförlasti núlifandi Íslendingurinn og er hvergi nærri hætt. Hún ráðgerir að halda upp á þrítugsafmælið sitt í Máritíus í febrúar sem verður tvöhundruðasta landið sem hún heimsækir. Hún er fædd í Evrópu, rekur ættir sínar til Suður-Ameríku og alin upp í Norður-Ameríku. Hún hefur þó heimsótt allar heimsálfur og kunni sérstaklega vel við sig á Suðurskautslandinu. Venjulega ferðast hún um heiminn á veturna og safnar peningum hér heima á sumrin. Hún er þó óvænt stödd hérlendis yfir jólin vegna veikinda föður síns og gaf sér tíma til þess að spjalla við DV um ævintýralegan lífsstíl sinn.

Ræturnar í þremur heimsálfum

Katrín Sif er fædd á Íslandi. Faðir hennar er frá Vestmannaeyjum en móðir hennar er frá Gvæjana, litlu landi í Suður-Ameríku. Foreldrar Katrínar Sifjar skildu að skiptum þegar hún var á barnsaldri og úr varð að þær mæðgur fluttu til Vancouver í Kanada þar sem Katrín Sif ólst upp. Hún saknaði þó alltaf Íslands sem hún lítur á sem heimaland sitt. „Ég þráði alltaf að flytja aftur til Íslands og átti erfitt með að sætta mig við að mega það ekki. Samskipti foreldra minna voru ekki góð á þessum árum og þess vegna fór ég sjaldan heim til Íslands,“ segir Katrín Sif. Erfiðast þótti henni að mega ekki tala íslensku við systur sína í grunnskóla þeirra í Vancouver og þess vegna fennti smám saman yfir íslenskukunnáttu hennar. Á fullorðinsárum hefur hún þó tekið upp þráðinn að nýju og talar við blaðamann á góðri íslensku.

Ferðaþráin kviknaði í Japan

Segja má að ævintýraþrá Katrínar hafi kviknað fyrir alvöru þegar móðir hennar sendi hana í eins konar vistaskipti í nokkrar vikur til Japan. „Fyrst dvaldi japönsk stúlka hjá okkur í Vancouver í nokkra mánuði og síðan heimsótti ég hana til Japan. Það var gjörsamlega mögnuð upplifun því allt var svo framandi. Ég skildi hvorki tungumálið né letrið og fólkið og maturinn var allt öðruvísi en ég hafði áður séð. Ég varð algjörlega heilluð og síðan þá hafa ferðalög eiginlega átt hug minn allan,“ segir Katrín Sif.

Háskólanám um borð í skemmtiferðaskipi

Hún notaði skólaferil sinn til þess að þefa uppi tækifæri til þess að ferðast og upplifa ný ævintýri. Eftir hina jákvæðu upplifun í Japan skráði hún sig í skiptinám til Brisbane í Ástralíu í hálft ár þegar hún var komin í háskóla. Það var þó hvergi nærri nóg og ævintýrin héldu áfram. „Ég tók eina önn um borð í skemmtiferðaskipi og það var eitthvað sem ég mæli sterklega með. Það var eins og ég væri stödd í raunveruleikaþætti í nokkra mánuði samfellt. Ég trúði því ekki að 19 ára stelpa gæti búið um borð í skipi, ferðast um heiminn og fengið háskólaeiningar fyrir,“ segir Katrín Sif og hlær þegar blaðamaður hváir. Um er að ræða prógramm sem heitir „Semester at Sea“ og þar læra um 500 nemendur um borð í skemmtiferðaskipi sem siglir í kringum hnöttinn.

Katrín Sif lagði af stað frá Mexíkó og þremur mánuðum síðar kom skipið í höfn í Flórída. Stoppað er í hinum og þessum löndum á leiðinni en um tólf kennarar sjá til þess að námið sé einnig stundað af kappi. „Þetta var frábær reynsla sem ég mæli hiklaust með fyrir þá sem vilja upplifa eitthvað skemmtilegt og læra um leið,“ segir Katrín Sif. Verkefnið er enn í gangi og fer skipið ólóka leið í hvert skipti. Nýlega lauk haustönn 2016 þar sem lagt var í hann frá Hamborg í Þýskalandi áleiðis til Grikklands, Ítalíu, Spánar, Marokkó, Senegal, Brasilíu, Trínidad og Tóbagó, Panama, Perú, Ekvador, Kostaríku og síðan er endað í San Diego í Bandaríkjunum.

Elskaði Suðurskautslandið

Eftir sjóævintýrið flutti Katrín Sif aftur til heimabæjar síns, Vancouver, og lauk þar B.Sc.-gráðu. Hún flutti síðan til Íslands þar sem hún fór í mastersnám í umhverfis- og auðlindafræði. „Ég hef alltaf reynt að samtvinna skólann og ferðalög eins og ég get. Ég fór til dæmis eina önn í skiptinám í Berkeley-háskóla í Kaliforníu. Þar fékk ég mikinn áhuga á vistvænum ferðalögum (e. eco tourism) og það gaf mér tækifæri til þess að heimsækja Suðurskautslandið. Ég kunni afar vel við mig þar og gæti vel hugsað mér að fara aftur þangað,“ segir Katrín Sif.

Safnar peningum á sumrin

Eftir útskrift úr HÍ hefur Katrín Sif tekið ferðalögin á annað stig. „Síðan 2010 hef ég unnið á Íslandi yfir sumartímann. Ég hef starfað sem leiðsögumaður í lengri hestaferðum hjá Íshestum en ég hef ástríðu fyrir hestum og hestamennsku. Ég tek um 7–12 viku ferðir á hverju sumri en síðan kaupi ég mér miða eitthvert út í heim og kem aftur til Íslands í maí. Það hefur þó komið fyrir að ég komi til baka í mars ef peningarnir eru uppurnir,“ segir Katrín Sif kímin. Að hennar sögn líður henni best uppi á hálendi Íslands á hestbaki um sumartímann. „Ég get ekki sagt að ég sé mikill aðdáandi íslenska vetrarins og þess vegna forða ég mér af landi brott yfir köldustu mánuðina,“ segir Katrín Sif.

Ferðast með giftingarhring

Það er dýrt að ferðast og því hefur Katrín Sif tileinkað sér lífsstílinn „couch-surfers“. Um er að ræða samfélag á netinu þar sem einstaklingar bjóða ferðalöngum að gista á heimili sínu í stuttan tíma þeim að kostnaðarlausu. „Þar sem er internet er hægt að finna einstaklinga sem eru virkir í þessu samfélagi. Ég var að ferðast um Vestur-Afríku fyrir nokkrum árum og þrátt fyrir að fólk byggi í tjöldum þá voru allir á netinu í símunum sínum og voru virkir á samfélagsmiðlum,“ segir Katrín Sif. Hún er nýkomin úr þriggja mánaða reisu til Íran, Afganistan og Pakistan þar sem hún gisti allar nætur hjá nýju fólki. „Það var áhugaverð upplifun að ferðast um þessi lönd en undir lokin var ég alveg búin að fá nóg. Ég var hulin svörtu frá toppi til táar á hverjum degi með slæðu yfir hárinu. Ég þurfti að ganga um göturnar með karlmann mér við hlið og þurfti að fylgja þúsund reglum. Ég mátti ekki reykja, hvorki syngja né dansa opinberlega, ekki drekka kaffi, ekki ganga inn tilteknar götur eða heimsækja moskur. Ég vil vera frjáls og mig var farið að dreyma um að komast á sólríka eyju, klæðast bara bikiníi og vera laus við boð og bönn,“ segir Katrín Sif.

„Þetta er mjög skemmtilegur ferðamáti og maður kynnist innfæddum mun betur og þar með menningu landsins. Hins vegar eru vissulega hættur og stundum óþægindi sem fylgja þessum ferðamáta. „Viðreynslan“ er sérstaklega hvimleið og ég held að það hafi verið reynt við mig á flestum tungumálum heimsins,“ segir Katrín Sif og tekur fram að það séu ekki bara karlmenn sem geri hosur sínar grænar, konurnar láta líka til skarar skríða. Til þess að forðast slíkar uppákomur hefur Katrín Sif tekið upp á því að ferðast með hring á fingri og bent ástleitnum á að ímyndaður eiginmaður bíði hennar handan hafsins.

Uppáhaldslönd Katrínar Sifjar

Fongafale, Tuvalu. Þetta er einn af eftirlætisstöðum Katrínar Sifjar.

Fongafale, Tuvalu. Þetta er einn af eftirlætisstöðum Katrínar Sifjar.

Japan

Það var í fyrsta skipti sem ég ferðaðist einsömul og í fyrsta skipti sem ég upplifði algjört menningarsjokk. Ekkert var eins og heima hjá mér og ég elskaði þennan framandi stað og líka að vera sjálf framandi. Fólk starði á mig á götum úti því ég var óvenjuleg og síðan þá hefur mig alltaf langað til þess að upplifa þessa tilfinningu á öðrum stöðum á hnettinum.

Tuvalu

Ég heimsótti aðeins Fongafale og hvet fólk til að skoða myndir þaðan á Google. Þetta er í raun bara örmjótt 12 kílómetra strik úti í miðju Kyrrahafi. Hæsti punktur Fongafale er aðeins um fjóra metra yfir sjávarmáli. Eina flugbrautin á eyjunni er afar fyrirferðarmikil og þegar hún er ekki í notkun þá breytist hún í völl fyrir margvíslegar íþróttir. Tvisvar í viku lenda flugvélar þarna og þá keyrir bíll eftir flugbrautinni og rýmir hana af fólki og svínum.

Argentína

Hér er allt í boði. Frumskógar, vötn, snjór, jöklar, eyðimerkur, fjöll, strendur, heit sumur og kaldir vetur. Matar- og vínmenningin í landinu er svo kapítuli út af fyrir sig auk þess sem útivistarmöguleikarnir eru endalausir. Að mínu mati er ferðalag til Argentínu eins og að bragða á öllum hornum heimsins.

Frakkland

Ég elska mat, vín, súkkulaði, listir og sögu. Í Frakklandi er ofgnótt af öllu þessu. Gæði menningarlífsins þar eru svo mikil að stundum óska ég þess að ég gæti varið dögunum í að hjóla um frönsku Rívíeruna með bagette og osta í körfu framan á hjólinu og íklædd sumarkjól.

Namibía

Þetta er líklega einmanalegasti staðurinn sem ég hef ferðast til. Ég fór þar um svæði þar sem villt dýr réðu ríkjum, eyðimerkur ná svo langt sem augað eygir og skipsflök eru á víð og dreif við strendur landsins. Þetta er töfrandi ævintýraland, sérstaklega fyrir ljósmyndara og útivistarfólk. Dularfull blanda af Afríku, Hollandi og Þýskalandi.

Suðurskautslandið

Ímyndaðu þér að ferðast að endimörkum jarðar og koma á stað sem er svo ósnortinn og náttúrulegur að það eina sem verður á vegi þínum er ógrynni mörgæsa af öllum stærðum og gerðum. Síðan er það sjávarlífið. Pirruð sæljón, hlébarðaselir með blóðuga skolta, háhyrningar og ógnarstórar steypireyðar. Í bakgrunni eru snæviþaktir fjallgarðar og jöklar. Ef fólk heimsækir staðinn yfir sumarmánuðina er sólarljós allan sólarhringinn sem eykur á upplifunina.

St. Vincent og Grenadíneyjar

Þetta er sú eyja í Karíbahafinu sem erfiðast er að heimsækja. Sú staðreynd gerir það að verkum að minna er um túrista þar og upplifunin verður sérstakari. Maður kemst betur í samband við heimamenn og upplifir menningu þeirra í stað þess að vera fastur á hóteli sem gæti verið hvar sem er í heiminum. Það er líka mun minna um rusl á eyjunni og strendurnar eru ótrúlega fallegar.

Líbanon

Þetta land kemur ótrúlega á óvart. Þegar ég lenti þá vissi ég varla hvort ég var stödd í Evrópu eða Mið-Austurlöndum. Þarna ægir öllu saman, kristnum og múslimum og allir tala ensku, arabísku eða jafnvel frönsku. Maturinn er stórkostlegur og nóg af góðu líbönsku víni. Þarna er hægt að skemmta sér þar til sólin kemur upp, liggja á ströndinni allan daginn, ganga á fjöll eða skella sér á skíði yfir vetrarmánuðina. Þetta allt er hægt að gera í örlitlu landi sem er umkringt löndum þar sem ofbeldi og voðaverk eru daglegt brauð.

Egyptaland

Algjört öngþveiti ríkir þar en á skemmtilegan og spennandi hátt. Saga landsins er ótrúleg og nánast erfitt að meðtaka hana alla. Kaíró er hávær borg og lyktin þar er afar framandi en eyðimerkurnar endalausu og sú draumsýn að ríða á arabískum hesti út í sólsetrið hefur alltaf dregið mig aftur til landsins. Að stinga sér til sunds í Rauðahafinu er önnur heillandi minning. Ég íhugaði einu sinni að fara að læra arabísku og magadans, bara til þess að hafa ástæðu til þess að ílengjast í Egyptalandi. Þar ríkir hins vegar talsverður órói nú um stundir þannig að sá draumur er á ís.

Ísland

Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur og það á við um samband mitt við Ísland. Mér finnst landið verða fallegra í hvert skipti sem ég sný aftur heim og ég kann hvergi betur við mig en við að kanna hálendi Íslands, helst á hestbaki. Þá líður mér eins og raunverulegum landkönnuði.

Tvöhundruðasta landið innan seilingar

„Ég hef aldrei lent í neinum alvarlegum vandræðum þegar ég gisti hjá einhverjum í „couch-surfing“ samfélaginu. Ég rannsaka alla sem ég hyggst gista hjá og skoða allar umsagnir um þá. Ef ekkert virðist athugavert þá sendi ég viðkomandi skilaboð og spjalla aðeins við hann. Síðan staðfesti ég komu mína. Ég hef örugglega gist hjá um 400 einstaklingum og fjölskyldum undanfarin ár,“ segir Katrín Sif.

Eins og áður segir hefur Katrín Sif ferðast til 197 landa en samkvæmt lista Sameinuðu þjóðanna eru löndin aðeins 193. „Ég tel með lönd eins og Grænland, Færeyjar og til dæmis Gíbraltar. Með þessum hætti eru um 230 lönd til í heiminum öllum þannig að ég á nóg eftir að skoða. Ég setti mér það markmið að ná tvö hundruð löndum fyrir þrítugsaldurinn og það er enn á dagskrá,“ segir Katrín Sif. Hún vill helst verja löngum tíma í hverju landi, kynnast menningarheimi landsins og innfæddum. „Ég ferðast yfirleitt ein þó að ég mæli mér stundum mót við vini mína í einhverjum löndum. Ég vil helst hafa frelsi til þess að haga hverjum degi eins og mér sýnist og því er ég ekki mikið fyrir að vera í samfloti með ferðafélaga,“ segir Katrín Sif. Hún hagar seglum eftir vindi á hverjum stað. „Ef ég er í Frakklandi þá reyni ég að drekka í mig menningu og listir á söfnum og í tónleikasölum. Þegar ég var að ferðast um eyjarnar í Kyrrahafi þá var lítið að gera eða skoða og þá var ég á ströndinni í fjóra mánuði að slaka á,“ segir Katrín Sif og hlær.

„Stan-löndin“ á dagskrá næsta árs

Það eru fá svæði í heiminum sem Katrín Sif á eftir ókönnuð. „Ég á eftir að fara til Sýrlands og Líbíu og reikna ekki með að fara þangað alveg á næstunni vegna aðstæðna þar. Ég á síðan eftir að ferðast til landanna í miðri Afríku, til dæmis Tsjad, Mið-Afríkulýðveldisins, Kongó og Suður-Súdan. Ástandið þar er líka frekar ótryggt, því ætla ég aðeins að bíða með heimsókn þangað. Síðan á ég eftir að ferðast til „Stan-landanna“ í Mið-Asíu, það er að segja Kasakstan, Úsbekistan, Túrkmenistan og Tadsjikistan. Þar er mikil hestamenning og ég er að íhuga að brjóta upp munstrið og heimsækja þessi lönd í sumar og ferðast þar um á hestbaki,“ segir Katrín Sif.

Eins og gefur að skilja hefur Katrín Sif lent í fjölmörgum ævintýrum á ferðalögum sínum. Hún hefur haldið úti bloggsíðu, fyrst á vef dohop en síðan á eigin bloggsíðu. Í vinnslu er bók um ferðalögin sem verður að öllum líkindum tilbúin á næsta ári.

Giftist óvart kenískum stríðsmanni

„Eitt það skrítnasta sem ég hef lent í er líklega þegar ég giftist óvart Maasai-stríðsmanni í Kenía,“ segir Katrín Sif og skellihlær. Aðdragandinn var sá að Katrín Sif flutti fyrirlestur um vistvæn ferðalög á ráðstefnu í Úganda þar sem verðandi eiginmaður hennar var einnig meðal fyrirlesara. „Ég sagði honum frá því að ég ætlaði að ferðast til Kenía eftir ráðstefnuna og þá vildi hann ólmur taka á móti mér og sýna mér landið sitt.“ Katrín Sif þáði boðið með þökkum og þegar hún kom í rútu til Naíróbí beið maðurinn eftir henni á umferðarmiðstöðinni. Fagnaðarfundir urðu við komu Katrínar og fyrsti viðkomustaður var heimili mannsins á verndarsvæði Massai-fólks.

„Frændi hans var með í för og hann færði mér rauðan kjól og skartgripi sem ég var hvött til þess að klæða mig í þegar við komum á áfangastað,“ segir Katrín Sif. Hún hlýddi því en tvær grímur fóru að renna á hana þegar glæsilegt dansatriði hófst og hún var kynnt fyrir móður mannsins og systur. „Í lok atriðisins var síðan tilkynnt hátt og snjallt að ég og maðurinn værum nú gift,“ segir Katrín Sif og hlær að minningunni. Hún steig fast til jarðar í framhaldinu og kippti lukkulegum eiginmanninum til hliðar þar sem viðræður um tafarlausan skilnað hófust. „Það tók smá tíma að útskýra fyrir honum að ég ætlaði ekki að gerast eiginkona hans. Hann vildi endilega að ég íhugaði málið og gisti í herbergi hans um nóttina. Hann skildi þetta þó að lokum og vildi síðan meina að þetta hafi nú bara verið grín,“ segir Katrín Sif.

Vélarvana úti á ballarhafi

Öllu hættulegri uppákoma átti sér stað þegar Katrín Sif ferðaðist um Gíneu-Bissá á Vesturströnd Afríku. „Ég skellti mér í ferð á litlum fiskibáti út í nærliggjandi eyju þar sem við vörðum deginum. Báturinn var alveg að verða eldsneytislaus þegar við komum að eyjunni og þar keypti eigandi bátsins viðbótareldsneyti. Við héldum síðan til baka seinnipart dagsins og einhverra hluta vegna ákvað eigandinn að setja eldsneytið á tankinn þegar hann var orðinn galtómur. Þegar hann var búinn að tæma brúsann þá áttaði hann sig á því að þetta var dísilolía sem var ekkert sérstaklega heppilegt því um bensínvél var að ræða,“ segir Katrín Sif. Vélin fór því ekki meira í gang þann daginn og báturinn því vélarvana úti á ballarhafi.

„Við sáum ekki til lands og gátum ekki sent nein skilaboð frá okkur. Við hírðumst því þarna á pinkulitlum bátnum í steikjandi hita,“ segir Katrín Sif. Níu manns voru um borð, sex innfæddir og þrír ferðamenn, og aðeins tvær vatnsflöskur til skiptanna. Klukkutímarnir liðu og kolniðamyrkur skall á. „Við vorum búin að dúsa þarna í átta klukkustundir þegar bátur kemur að fyrir algjöra tilviljun,“ segir Karen Sif. Um var að ræða Breta sem gerði út á sjóstangaveiði á svæðinu. Báturinn hans var mun stærri, en sá hængur var á að hann bauðst aðeins til þess að taka túristana þrjá með um borð en ætlaði að skilja heimamennina eftir.

„Þeir rökræddu málið fram og til baka en skipstjórinn á okkar bát vildi alls ekki leyfa okkur að fara í fyrstu því að við vorum í raun lykillinn að björgun hans,“ segir Karen Sif. Úr varð að ferðamennirnir fengu að fara um borð gegn því að litla vélarvana kænan yrði dregin til lands auk þess sem björgunarmaður þeirra greiddi skipstjóranum á fiskibátnum pening fyrir Katrínu Sif og hina tvo ferðamennina. „Ég skildi nú ekkert í því en var ekki að velta því of mikið fyrir mér. Ég var alveg búin að fá nóg af sjóferðum og því voru það mikil vonbrigði þegar björgunarmaður okkar sigldi aftur út í eyjuna sem við vorum að koma frá. Þar fengum við að borða og síðan næturgistingu en fyrir það vorum við rukkuð um 400 dollara, sem er stórfé á þessum slóðum. Þá skildi ég betur þessa upphaflegu greiðslu,“ segir Katrín Sif.

Hún komst loks á meginlandið aftur daginn eftir og forðast í hvívetna bátsferðir eftir þessa reynslu. „Ég reyni að halda mig við flugið eða rúturnar eftir fremsta megni,“ segir hún og hlær.

Íslenska vegabréfið er frábært

Tvöfalt ríkisfang Katrínar Sifjar hefur komið sér vel á öllum ferðalögunum. „Ég er með íslenskt og kanadískt vegabréf sem ég nota jöfnum höndum eftir því hvað hentar best. Íslenska vegabréfið er frábært vegna þess að við erum með svo fá sendiráð og því get ég yfirleitt sótt um vegabréfsáritanir til vissra landa í því landi sem ég er stödd. Eina vandamálið sem ég hef lent í er að komast til Alsír. Ég hef nokkrum sinnum reynt að ferðast þangað en hef rekið mig á að ég þarf að sækja um áritun til sendiráðs í Stokkhólmi og það hefur ekki gengið upp. Ég á því enn eftir að heimsækja Alsír en ég mun gera það fljótlega,“ segir Katrín Sif. Íslenskan er ekki eins hjálpleg á ferðalögunum en alþjóðlegur bakgrunnur ævintýrakonunnar gerir að verkum að hún er vel vopnum búin á þeim vígvelli. „Ég tala ensku, spænsku og frönsku vel og með þessi tungumál get ég bjargað mér nánast alls staðar. Franskan hefur til dæmis komið sér afar vel í Afríku,“ segir Katrín Sif.

Ætlar að halda áfram að ferðast

Framtíðin er óráðin hjá Katrínu Sif en hún sér fyrir sér að halda áfram að ferðast. Fjölskyldan hefur líka tekið lífsstílinn í sátt og því enginn að þrýsta á hana um að skipta um stefnu. „Mamma var fyrst um sinn að tuða í mér að ég þyrfti verða lögfræðingur eða læknir og eignast hús, mann og börn en hún er hætt því núna. Hún var ansi ákveðin og stjórnsöm, að mér fannst, og kannski er þessi lífsstíll einhvers konar uppreisn. Pabbi segir að ég hafi alltaf verið einstaklega ákveðin og sjálfstæð. Eftir því sem árin líða þá upplifi ekki annað en að ættingjar og vinir séu stoltir af mér þó svo að þetta sé öðruvísi lífsstíll en margir velja sér,“ segir Katrín Sif. Hana dreymir um að vinna við einhvers konar ferðatengda blaðamennsku í framtíðinni að því gefnu að það sem er henni kærast – frelsið – sé ekki skert. „Ég er að spá í að taka Georg Bjarnferðarson á þetta og skella mér aftur í skóla, kannski í fjölmiðlafræði eða einhvers konar doktorsnám. Ég spái stundum í hvort að mér muni leiðast ef ferðalögin verða líka vinnan mín. Ég vil geta hagað hlutunum eftir mínu höfði og sé ekki fyrir mér að vinna einhvers staðar frá 9–5. „Ég kann að meta frelsið og einveruna“,“ segir ævintýrakonan Katrín Sif Einarsdóttir.

Hægt er að fylgjast með ævintýrum hennar á Instram og Facebook.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Óhugnanlega tattúmálið í Kópavogi: Ólafur skoðaði samfélagsmiðla mannsins og það kviknuðu viðvörunarbjöllur – „Mjög perralegt“

Óhugnanlega tattúmálið í Kópavogi: Ólafur skoðaði samfélagsmiðla mannsins og það kviknuðu viðvörunarbjöllur – „Mjög perralegt“
Fókus
Í gær

Sonur Birgittu Lífar og Enoks kominn með nafn

Sonur Birgittu Lífar og Enoks kominn með nafn
Fókus
Fyrir 3 dögum

Lítt þekkt ættartengsl: Gullslegni athafnamaðurinn á b5 og einn af Klúbbsmönnunum úr Guðmundar- og Geirfinnsmálinu

Lítt þekkt ættartengsl: Gullslegni athafnamaðurinn á b5 og einn af Klúbbsmönnunum úr Guðmundar- og Geirfinnsmálinu
Fókus
Fyrir 3 dögum

Gervigreind spilar nýtt hlutverk í tattúbransanum – „Þetta er algjör snilld stundum, en svo finnst mér þetta líka svolítið ógnvekjandi“

Gervigreind spilar nýtt hlutverk í tattúbransanum – „Þetta er algjör snilld stundum, en svo finnst mér þetta líka svolítið ógnvekjandi“