fbpx
Fimmtudagur 08.janúar 2026
Pressan

ICE skaut konu til bana í Minneapolis – Áttu ekkert erindi við konuna en töldu sér ógnað

Pressan
Miðvikudaginn 7. janúar 2026 20:09

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fulltrúi Útlendingaeftirlits Bandaríkjanna, ICE, skaut konu til bana í Minneapolis í dag. Konan, sem var 37 ára gömul, sat við stýri í bílnum sínum en fjöldi mynbanda af atvikinu er nú í dreifingu á metinu.

Á myndskeiðunum má sjá stóran jeppa sem lokar íbúagötu. Nærri stendur hópur mótmælenda. Þá koma að lögreglubifreiðar og fulltrúar útlendingaeftirlitsins. Þeir fara að jeppanum og skipa konu, sem situr þar ein, að yfirgefa bifreiðina. Konan virðist ekki hafa farið að fyrirmælum og þess í stað reynt að aka áfram. Við þetta hóf einn fulltrúinn skothríð og skýtur konuna í höfuðið, en við það missir hún stjórn á jeppanum og klessir á annan bíl. Vitni heyrast svo öskra á fulltrúa ICE að hann hafi myrt konuna.

Borgarstjóri Minneapolis, Jacob Frey, segist ekki kaupa þá skýringu stjórnvalda að ICE hafi verið sent til borgarinnar til að gæta að öryggi íbúa. Þetta sé yfirskin. Tilgangurinn sé að stuðla að mótmælum og óeirðum til að réttlæta það að grípa til herlaga. „Drullið ykkur frá Minneapolis,“ sagði Frey í skilaboðum til ICE á blaðamannafundi.

Hvíta húsið brást illa við ásökunum borgarstjórans og kallar hann skítseiði í yfirlýsingu þar sem honum er sagt að skammast sín. ICE hafi losað Minneapolis við stórhættulega glæpamenn.

Að sögn lögreglu var hin látna hvít kona á miðjum aldri og ekkert bendir til þess að útlendingaeftirlitið hafi átt við hana nokkuð erindi. Hún virðist hafa setið í bíl sínum og lokað þannig fyrir umferð. Lögreglustjórinn, Brian O’Hara, segir það áhyggjuefni að óvopnaður einstaklingur í bifreið hafi verið skotinn til bana. Lögreglan hafi óttast að tilvik sem þetta kæmi upp eftir að ICE-liðar voru sendir til borgarinnar. Nú óttast lögregla frekari stigmögnun og hvetur fólk til stillingar.

Konan lést aðeins fáeinum götum frá staðnum þar sem George Floyd lét lífið í haldi lögreglu árið 2020 sem leiddi til fjölmennra og harðra mótmæla gegn framkomu lögreglunnar í garð svartra.

ICE vill meina að konan hafi sjálf borið ábyrgð á atvikinu. Hún hafi ógnað lífi fulltrúa ICE með því að gera sig líklega til að aka yfir hann. Heimavarnaráðherra Bandaríkjanna, Kristi Noem, gengur svo langt að kalla konuna hryðjuverkamann.

Ríkisstjórinn Tim Walz segist hafa séð myndbönd af atvikinu og biður fólk um að falla ekki fyrir áróðri ráðuneytisins.

NBC ræddi við vitni að atvikinu, en þau segja að ekkert hafi bent til þess að konan hafi reynt að aka yfir ICE-fulltrúann.

„Ég er frekar hægrisinnaður en að sjá þetta, þetta er ekki það sem við þurfum. Þetta er ekki hvernig á að gera þetta. Þetta er ekki hvernig við gerum hlutina hér í Bandaríkjunum,“ sagði eitt vitnið.

Annað vitni sagðist hafa heyrt ummæli heimavarnaráðherrans og vildi koma því skýrt á framfæri að það væri nóg bil á milli fulltrúans sem skaut konuna og bílsins. Fulltrúinn hafi ekki verið í nokkurri hættu. Konan hafi ekki ætlað sér að skaða neinn heldur var hún að reyna að flýja.

Enn annað vitni segir í samtali við staðarmiðilinn MPR að hún hafi vaknað við læti fyrir utan heimili sitt. Hún sá jeppa stöðva umferð fyrir utan og taldi ljóst að um mótmæli gegn ICE væri um að ræða. Fulltrúi ICE hafi skipað ökumanni bifreiðarinnar, konu, að yfirgefa bílinn.

„Hún reyndi þá að snúa bílnum við, fulltrúi Ice var fyrir framan bílinn og tók upp byssu og miðaði henni beint – mitti hans var við stuðara bifreiðarinnar – og svo teygði hann sig yfir húddið og skaut hana í andlitið svona 3-4 sinnum.“

ABC News hefur það eftir borgarráðsfulltrúanum Jason Chavez að hin látna sé bandarískur ríkisborgari. Hún hafi stöðvað umferð til að verja samfélag innflytjenda í Minneapolis.

Fréttin hefur verið uppfærð

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 2 dögum

Vísindamenn segja að þetta sé miklu betri mælikvarði en BMI-stuðullinn

Vísindamenn segja að þetta sé miklu betri mælikvarði en BMI-stuðullinn
Pressan
Fyrir 2 dögum

Göng milli Evrópu og Afríku aftur komin á teikniborðið

Göng milli Evrópu og Afríku aftur komin á teikniborðið