Stúlka frá Massachusetts mætti fyrir rétt í þessari viku til að vitna gegn fjölskylduvini sem er sakaður um að hafa beitt hana margvíslegum ofbeldisverkum.
Hún var aðeins sjö ára gömul þegar henni var rænt, nauðgað, kyrkt, troðið í skott bíls og síðan kastað af brú eftir að hafa verið vafin inn í teppi og með poka bundinn yfir höfuðið, samkvæmt saksóknaraembætti Worcester-sýslu. Barninu tókst síðan einhvern veginn að synda meira en 100 metra að ströndinni og leita sér hjálpar í nærliggjandi húsi í Shrewsbury, bæ um 64 kílómetra vestur af Boston.
Þegar hún var spurð hver hefði framið þessi hræðilegu verk, sagði unga stúlkan lögreglunni að „vinur hennar, Josh“, hefði gert það, sem leiddi til handtöku Joshua Hubert.
Stúlkan, sem nú er 15 ára, mætti fyrir dóm 8. september til að bera vitni í málinu gegn Hubert, sem er ákærður fyrir nauðgun, mannrán, kyrkingu og tilraun til manndráps.
Hubert, 45 ára, var vinur föður stúlkunnar frá barnæsku og hafði verið meðal gesta í afmælisgrillveislu sem haldin var heima hjá afa og ömmu stúlkunnar 26. ágúst 2017.
Um klukkan hálftvö að nóttu þann 27. ágúst 2017 heldur lögreglan því fram að Hubert hafi rænt sofandi stúlkunni heima hjá afa sínum og ömmu. Hann mun síðan hafa sett stúlkuna í bíl sinn og ekið um borgina áður en hann kyrkti hana, tróð henni í skottið og kastaði henni af brú eftir að hafa vafið hana inn í teppi.
Stúlkan lifði af fallið í Quinsigamond-vatnið og synti í land þrátt fyrir að teppið og náttföt hennar drægju hana niður.
Lögreglan sagði að stúlkan hefði borið kennsl á manninn sem réðst á hana sem „vin sinn Josh“. Þetta leiddi til handtöku Huberts og síðar ákæru fyrir mannrán, tilraun til manndráps og kyrkingar.
Saksóknaraembættið segir að stúlkan hafi ekki tilkynnt um nauðgun fyrr en árið 2022 vegna þess að hún skildi ekki hugtakið kynferðisofbeldi eða hvað gerðist í aftursætinu á bílnum nóttina sem atvikið átti sér stað.
Miðlar vestanhafs greina frá því að stúlkan hafi borið vitni fyrir dómi um að hún hafi látið eins og hún væri látin á meðan á árásinni stóð eftir að hafa verið troðið inn í skott bílsins.
„Sem betur fer var hægt að koma í veg fyrir stærri harmleik,“ sagði Joseph D. Early Jr., saksóknari Worcester-sýslu, í yfirlýsingu. „Unga fórnarlambið hafði styrk til að komast í land og fá hjálp. Ég vil þakka íbúanum sem opnaði dyrnar og hjálpaði stúlkunni. Ég vil einnig þakka lögreglunni í Worcester og Shrewsbury og rannsóknarlögreglumönnum ríkislögreglunnar sem voru á skrifstofu minni. Þau unnu frábært starf við að rannsaka þetta mál.“
Verjandi Huberts heldur því fram að skjólstæðingur hans sé saklaus og benti á fyrir dómi að enn séu engar DNA-sannanir sem tengja Hubert við glæpinn eða þolandann.