Donald Trump Bandaríkjaforseti vill þiggja 53 milljarða gjöf frá konungsfjölskyldunni í Katar. Um er að ræða lúxusþotu sem hefur verið kölluð fljúgandi höll. Þessi gjafagjörningur hefur fengið á sig harða gagnrýni, forsetanum til lítillar gleði, og þrátt fyrir að bandaríska ríkisstjórnin hafi borið því við að hér sé um að ræða samkomulag um tímabundna notkun á þotunni sem verði færð safni um forsetatíð Trump að gjöf eftir að hann lætur af embætti.
Trump hefur verið sakaður um spillingu vegna þessa og vændur um að þiggja þotuna sem eins konar mútur, en Trump og fjölskylda hans eiga í umfangsmiklum viðskiptum í Mið-Austurlöndum. Nú hefur CNN greint frá því að til að bæta gráu ofan á svart hafi það í reynd verið ríkisstjórn Trump sem átti frumkvæðið að lúxusþotudramanu.
Ríkisstjórn Trump hafi leitað til Katar til að kanna hvort hægt væri að skaffa þeim forsetaflugvél af gerðinni Boeing 747. Þetta hefur miðillinn eftir fjórum heimildarmönnum sem munu þekkja til þessara samningaviðræðna. Þetta er í hróplegu ósamræmi við skýringar bandarískra stjórnvalda sem hafa haldið því fram að Katar hafi haft samband að fyrra bragði til að bjóða þotuna sem gjöf til Trump.
Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna, gjarnan kennt við höfuðstöðvar þess í Pentagon, hafði samband við Boeing fljótlega eftir að Trump tók við embætti í janúar. Fyrirtækið sagðist þó ekki getað afhent þeim nýja þotu fyrr en einhver ár. Ráðuneytið vildi ekki sætta sig við biðina og leitaði leiða til að fá nýja forsetaflugvél sem fyrst. Þá fékk Trump útsendara sinn í Mið-Austurlöndum, Steve Witkoff, til að taka saman lista yfir þotur sem kæmu til greina. Konungsfjölskyldan í Katar reyndist eiga vél sem þótti koma til greina og því bauðst Pentagon til að kaupa vélina og til að byrja með sagðist Katar vera tilbúið að selja.
Einnig kom til skoðunar að leigja vélina frekar en að kaupa hana. Trump hefur þó ítrekað lýst þessum viðskiptum sem framlagi eða gjöf frá konungsfjölskyldunni.
CNN fékk þau svör frá sendiráði Katar og stjórnarráði Bandaríkjanna að um þotuna verði gerður formlegur samningur milli varnarmálaráðuneyta ríkjanna tveggja. Að sögn heimildarmanna CNN eru lögmenn beggja vegna borðsins enn að vinna að samningsdrögum. Ekki er búið að taka formlega ákvörðun sem stendur.
Eins liggur fyrir að ef Bandaríkin taka við þotunni, hvort sem það er gegn gjaldi eða ekki, þá mun það kosta gífurlegan tíma og fjármagn að breyta henni svo hún henti forsetaembættinu.