Þann 27. apríl á síðasta ári gekk kona að nafni Carly Dunbar inn í herbergi sonar síns, Joshua, á heimili þeirra í bænum Birkenhead sem er nágrannabær borgarinnar Liverpool á Englandi. Við blasti hryllileg sjón. Joshua var meðvitundarlaus og sýndi engin viðbrögð þegar reynt var að vekja hann. Því miður lést hann síðar sama dag en það sem er grátlegast við andlátið er að þennan dag átti hann átta ára afmæli. Nú tæpu ári síðar vill móðir hans vara aðra foreldra við því sem varð syni hennar að bana en það var hlutur sem sjá má í afmælisveislum barna um allan heim, helíumblaðra.
Drengurinn fannst meðvitundarlaus inni í herberginu sínu um klukkan 14 að staðartíma þennan dag en yfir höfði hans var helíumblaðra sem var í laginu eins og talan 8.
Eins og áður segir tókst ekki að bjarga Joshua og hann var úrskurðarður látinn á sjúkrahúsi um kvöldið.
Breskir fjölmiðlar greina frá því að Carly móðir hans hafi nú stigið fram á samfélagsmiðlum og lýst því yfir að Joshua hafi verið yndislegur drengur sem verði sárt saknað og minning hans muni lifa að eilífu.
Hún segir son sinn hafa verið afar blíðan dreng sem hafi ekki hikað við að faðma vini sína. Carly segist vilja að ekkert foreldri þurfi nokkurn tímann að upplifa það sama og hún og beinir því eftirfarandi að öðrum foreldrum:
„Ekki kaupa helíumblöðrur.“
Carly segir helíumblöðrur geta einfaldlega kostað mannslíf.
Samkvæmt niðurstöðu krufningar var dánarorsök Joshua köfnun af völdum helíums. Réttarmeinafræðingur bendir á að drengurinn hafi ekki orðið fyrir eitrun enda sé helíum ekki eitrað heldur hafi það í þessu tilfelli einfaldlega ýtt öllu súrefni í burtu svo að Joshua gat ekki andað.
Það að hann andaði að sér helíum kom í veg fyrir að súrefni kæmist inn í líkama hans.
Enginn annar en Joshua var í herberginu þegar atvikið átti sér stað og talið er víst að hann hafi enga grein gert sér fyrir þeirri hættu sem fólst í gjörðum hans en talið er mögulegt að hann hafi ætlað að prófa að breyta rödd sinni með því að anda að sér helíuminu í blöðrunni.
Rannsókn á dauða Joshua er nú lokið og niðurstaðan er að um hörmulegt slys hafi verið að ræða. Dánardómstjóri tjáði Carly og föður Joshua að flestir gætu varla ímyndað sér hvað þau hefðu þurft að ganga í gegnum. Sagði hann margra foreldra eflaust ekki gera sér grein fyrir hættunni sem getur stafað af helíumblöðrum og nú vill Carly vara við þessari hættu.
Hún segir að dauði Joshua hafi gjörbreytt henni. Hún hafi áður verið mjög félagslynd en sé það ekki lengur. Hluti af henni hafi dáið með Joshua og hún hafi glímt við áfallastreituröskun og aðra andlega erfiðleika.
Carly á þrjú önnur börn og segir það hreina þjáningu að þurfa að halda lífinu áfram og vera sterk fyrir þau. Þótt ár sé liðið hafi ekkert orðið auðveldara að lifa með missinum. Hún vilji alls ekki að aðrir foreldrar upplifi það sama og ef bara tveir eða þrír sleppi því að kaupa helíumblöðrur þá komi það í veg fyrir dauða eins barns.
Hvetur Carly alla foreldra til að kaupa ekki helíumblöðrur, það sé það eina sem komi í veg fyrir að svona nokkuð gerist aftur. Blöðrur með hefðbundnu lofti, sem allir geti andað að sér, séu alveg jafn fallegar.