
Michelle Reiter var fráskilin tveggja barna móðir að detta í fertugt. Þrátt fyrir að hafa til þessa ekki verið heppin í ástum trúði hún því enn að draumaprinsinn væri þarna úti. Hún var því vongóð þegar hún mælti sér mót við gamlan skólafélaga þann 12. september árið 2012. Þetta yrði vonandi fyrsta stefnumótið af mörgum. En það var ekki draumaprinsinn sem beið hennar heldur dauðinn sjálfur og grunn gröf.
Fjallað er um mál Michelle í nýjasta þætti heimildaþáttaraðarinnar Killer Relationship with Faith Jenkins.
Michelle var 38 ára gömul og hafði verið fráskilin árum saman. Hún hafði undanfarin ár verið vör um sig í ástarlífinu eftir að fyrsta sambandinu eftir skilnað hennar lauk með ósköpum. Hún ákvað þó að slá til þegar maður að nafni Rocky Switzer setti sig í samband við hana á Facebook. Rocky sagðist vera gamall skólafélagi og þó svo að Michelle myndi ekki eftir honum hafði hún enga ástæðu til að rengja hann, enda eru skólar í Bandaríkjunum gjarnan fjölmennari en við erum vön hér á klakanum.
Þegar Rocky bauð henni á stefnumót þann 12. september árið 2012 ákvað Michelle að slá til, enda börnin hjá pabba sínum og auk þess myndi hún passa að vera komin tímanlega heim til að vera hress í vinnunni daginn eftir.
Morguninn eftir hringdi meðleigjandi hennar í lögreglu. Michelle hafði ekki skilað sér heim og svaraði ekki í síma. Rannsókn lögreglu leiddi í ljós að Michelle hafði verið blekkt. Rocky Switzer hafði aldrei gengið með henni í skóla, enda var hann ekki til.
Það er vaninn í svona málum að skoða fyrst núverandi og fyrrverandi maka kvenna sem hverfa. Fyrrverandi eiginmaður Michelle lá ekki undir grun, enda virtist hann virkilega miður sín yfir hvarfinu og hafði auk þess fjarvistarsönnun. Eftir skilnaðinn hafði Michelle átt í stormasömu sambandi við mann að nafni Lanny Bush. Sambandinu lauk með látum, en Lanny sakaði Michelle ranglega um ofbeldi sem varð til þess að hún þurfti að gista nótt í fangageymslu og var úrskurðuð í nálgunarbann gegn honum.
Lögreglu þótti Lanny strax grunsamlegur. Það kjaftaði á honum hver tuskan í fyrstu yfirheyrslu en lögreglumönnum þótti blasa við að hann væri að skrökva. Fyrst fullyrti hann að hann hefði mælt sér mót við Michelle þetta kvöld en að ekkert hefði orðið úr því, síðar gekkst hann við því að hafa notað dulnefnið Rocky Switzer og loks viðurkenndi hann að þau hefðu vissulega hist. Hann neitaði þó alltaf að hafa unnið Michelle mein og sagðist hafa skilið við hana í góðu.
Eftir að Michelle hafði verið saknað í tvær vikur fannst lík hennar í grunnri gröf skammt frá þeim stað þar sem farsímar hennar og Lanny höfðu seinast verið saman. Lanny hafði keypt byssuskot áður en hann hitti hana, en skotin voru fyrir byssu af sömu gerð og hafði nýlega verið stolið af ömmu hans. Við leit í bifreið hans fannst svo skófla sem hafði greinilega nýlega verið notuð í einhvers konar mokstur.
Ekki er víst hvernig Michelle dó þar sem lík hennar var illa farið vegna rotnunar þegar það fannst. Ákæruvaldið taldi þó líklegt að hún hefði verið skotin til bana og að Lanny hefði jafnvel byrlað henni ólyfjan fyrst.
Saksóknari lýsti því fyrir kviðdómi að Lanny hefði frétt af því að Michelle væri aftur farin að leita að ástinni og orðið brjálaður af afbrýðisemi. Hann hefði því villt á sér heimildir til að plata hana til að hitta sig. Hann hefði svo ógnað henni með byssu til að fá hana inn í bíl til sín, ekið svo með hana á afskekktan stað þar sem hann banaði henni.
Í áðurnefndum þáttum lýsa rannsakendur því hvernig allt í fari Lanny hafi kveikt á viðvörunarbjöllum. Líklega hafi hann talið öruggt að hann hefði komist upp með morð.
„Lanny hélt að hann hefði leikið á okkur. En að lokum lék hann aðeins á sjálfan sig,“ sagði einn rannsakendanna.