
New York Times segir frá þessu en maðurinn var haldinn nýrnasjúkdómi og þurfti nauðsynlega að gangast undir ígræðslu.
Maðurinn taldi sig hafa dottið í lukkupottinn þegar líffæragjafi fannst sem talinn var hafa látist úr hjartaáfalli.
Ekki löngu eftir ígræðsluna fór heilsu líffæraþegans mjög hrakandi og kom fljótlega í ljós að hann var haldinn hundaæði.
Rannsókn leiddi í ljós að líffæragjafinn hafði skömmu fyrir andlát sitt verið klóraður af skunki á lóð við heimili sitt í Idaho.
Hann lést um fimm dögum síðar en rannsókn Sóttvarnastofnunar Bandaríkjanna (CDC) leiddi í ljós að maðurinn hafði sýnt einkenni hundaæðis fyrir andlát sitt. Hann sá ofsjónir, átti í erfiðleikum með að kyngja og ganga og var mjög stirður í hálsinum. Rannsóknir staðfestu síðar að líffæragjafinn var með hundaæði.
„Þetta er ótrúlega sjaldgæfur atburður,“ segir Dr. Lara Danziger-Isakov, sérfræðingur í smitsjúkdómum við Cincinnati Children’s Hospital Medical Center, í samtali við New York Times.
Bent er á það að líffæragjafar séu yfirleitt ekki skimaðir fyrir hundaæði þar sem sjúkdómurinn er afar sjaldgæfur. Þegar einkenni hundaæðis eru byrjuð að koma fram er sjúkdómurinn nær alltaf banvænn.
Frá árinu 1978 hefur CDC skráð 13 tilfelli þar sem líffæraþegar hafa smitast af hundaæði frá gjöfum, þar af sjö banvæn. Heilbrigðisyfirvöld telja líklegt að skunkurinn hafi smitast af leðurblöku.