
Það var í janúar sem parið fór í hina krefjandi göngu upp á Grossglockner, tæplega 3.800 metra hátt fjall í Ölpunum.
Þegar parið var skammt frá toppnum örmagnaðist konan og treysti sér hvorki til að halda áfram né fara til baka. Maðurinn ákvað að skilja hana eftir til að sækja hjálp og barst hún rúmum sex klukkustundum síðar. Þegar viðbragðsaðilar komu að henni var hún látin vegna kulda.
Saksóknarar hafa nú gefið út ákæru í málinu og gæti kærastinn átt þriggja ára fangelsi yfir höfði sér.
Að sögn saksóknaraembættisins í Austurríki var konan með mjög litla reynslu af krefjandi fjallgöngum, ólíkt kærasta sínum sem hafði margoft farið í slíkar ferðir.
Er maðurinn sagt hafa gert mörg afdrifarík mistök í göngunni, til dæmis lagt of seint af stað í gönguna auk þess að vera ekki með nauðsynlegan neyðarútbúnað með sér. Þá kom hann kærustu sinni ekki fyrir í skjóli fyrir vindum á fjallinu á meðan hann fór og sótti hjálp.
Segja saksóknarar að maðurinn hafi átt að átta sig fyrr á því í hvað stefndi og snúa við. Réttarhöld yfir manninum hefjast í Innsbruck þann 19. febrúar næstkomandi.