
Brian Walshe er ákærður fyrir morðið á eiginkonu sinni, Önu Walshe, en líkamsleifar hennar hafa aldrei fundist.
Á þeim örvæntingarfullu klukkustundum eftir að Walshe hélt því fram að eiginkona hans, hefði látist af skyndilegum og óútskýrðum orsökum, á hann að hafa gert fjölda óþægilegra Google-leita á netinu, þar á meðal „hvernig á að saga lík“ og „hversu langan tíma tekur það áður en lík byrjar að lykta,“ sögðu saksóknarar fyrir dómi.
Walshe, sem er fimmtugur, er ákærður fyrir manndráp af fyrsta stigi í tengslum við hvarf og meint andlát eiginkonu sinnar, Ana, 39 ára, sem síðast sást á lífi snemma morguns 1. janúar 2023. Lík Ana, sem var móðir þriggja ungra drengja hefur aldrei fundist. Walshe neitar sök.
Í nóvember játaði hann hins vegar sök í tveimur minniháttar ákæruliðum um að flytja af ásettu ráði mannslíkama í andstöðu við lög ríkisins og að blekkja lögreglu.
Í opnunarræðu sinni mánudaginn 1. desember hélt verjandinn Larry Tipton því fram að Walshe hefði fundið eiginkonuna látna í rúminu um klukkan hálftvö að nóttu til og fengið kvíðakast og tekið þá ákvörðun að „fela“ það sem gerðist þennan örlagaríka morgun, samkvæmt beinni útsendingu sem sýnd var á Masslive.com og fjallað var um á People.
Walshe hafði áhyggjur af því hvað myndi verða um þrjá unga syni hjónanna sagði verjandi hans við kviðdómendurna. Hann hélt því fram að netleit Walshe hefði verið afleiðing af ótta hans í aðstæðunum.
Saksóknarar segja aðra sögu. Í opnunarræðu sinni mánudaginn 1. desember sagði Greg Connor, aðstoðarsaksóknari við kviðdómendurna að Ana hefði staðið í framhjáhaldi og það gæti að hluta verið ástæða Walshe fyrir verknaðinum.
Þann 27. desember 2022 er Brian sagður hafa leitað að klámi sem tengdist „sviksemi eiginkonu“ og leitað að upplýsingum um „bestu skilnaðaraðferðir fyrir karla“.
Saksóknarar hafa einnig fullyrt að Walshe hafi hugsanlega myrt konu sína fyrir peninga, þar sem hann var eini rétthafi 2,7 milljóna dala líftryggingar hennar.
Þriðjudaginn 2. desember heyrðu kviðdómendur um netleitir sem Walshe á að hafa gert eftir að hann segist hafa fundið konu sína látna í rúmi þeirra.
Frá klukkan 4:52 að morgni 1. janúar 2023 sýndi netferill Brians að hann á að hafa leitað í fartölvu sinni að „bestu leiðinni til að farga líki“, bar lögreglumaðurinn Nicholas Guarino frá Massachusetts vitni um 2. desember.
View this post on Instagram
Klukkan 4:55 að morgni leitaði hann að „Hversu langur tími líður áður en lík byrjar að lykta“.
Klukkan 6:24 leitaði hann að „Hversu lengi þarf einhver að vera horfinn áður en arfur er greiddur“ og klukkan 7:48:04 leitaði hann að Lowe’s-verslunum á svæðinu. Um þremur og hálfum tíma síðar, klukkan 9:35, leitaði hann að „er hægt að bera kennsl á hluta af líkamsleifum“ og síðan klukkan 9:59 að „Hvernig á að farga farsíma“.
Klukkan 10:29 leitaði hann að „Konan mín er týnd, hvað ætti ég að gera?“
Klukkan 11:50 leitaði hann að: „Get ég notað bleikiefni til að þrífa blóðbletti í viðargólfi“. Klukkan 12:53 leitaði hann að „Ætti ég að nota vetnisperoxíð 8 á blóðbletti í steypu“.
Brian hélt áfram leit sinni daginn eftir, laugardaginn 2. janúar, og byrjaði klukkan 12:27 þegar hann gúgglaði: „Hvernig á að saga lík?“.
Klukkan 12:33 leitaði hann að „Hack saw the best tool for dimembering a body“ eða Besta sögin til að sundurlima lík; klukkan 12:47: „Er hægt að ákæra þig fyrir morð án líks?“; klukkan 13:12: „Geturðu borið kennsl á lík með brotnum tönnum?“; klukkan 13:14: „Að farga líki í ruslið?“; og klukkan 14:01, „Hvernig á að fjarlægja harðan disk úr Apple fartölvu.“.
Sunnudaginn 3. janúar, klukkan 13:05, leitaði hann að „Lík fannst á sorpstöð“, síðan klukkan 13:12, „Getur lík brotnað niður í plastpoka“ og svo klukkan 19:30, „Getur lögreglan fengið leitarsögu þína án þess að nota tölvuna þína?“
Mánudaginn 4. janúar hringdi Walshe í yfirmann eiginkonu sinnar og spurðist fyrir um hana, sem varð til þess að yfirmaðurinn hringdi í lögregluna til að tilkynna hvarf Önu.
Walshe var í febrúar 2024 dæmdur í 37 mánaða fangelsi og þriggja ára eftirlit í tengslum við „áralanga, margþætta listsvikaáætlun sem fól í sér tvo meint málverk eftir Andy Warhol,“ sagði saksóknari Bandaríkjanna í Massachusetts-héraði. Honum var einnig gert að greiða 475.000 dala í skaðabætur.
Í apríl 2021 játaði hann sig sekan í öðru máli um símasvik, milliríkjaflutninga vegna fjársvikaáætlunar og ólöglegar peningafærslur.