
Brasilískur forstjóri á sextugsaldri lét lífið í hræðilegu slysi á líkamsræktarstöð á dögunum. Segja má að slysið sé svo sannarlega víti til varnaðar fyrir þá sem stunda bekkpressu en mikilvægt er að hafa lyftingafélaga til taks ef að eitthvað fer úrskeiðis.
Forstjórinn og fjölskyldufaðirinn Ronald Montenegro, 55 ára, var einsamall að stunda líkamsrækt á dögunum í ónefndri stöð í brasilísku borginni Recife þegar hann ákvað að skella sér í bekkpressu.
Montenegro setti nokkur þung lóð á stöngina og hugðist taka nokkrar lyftur þegar hann skyndilega missti stöngina á bringu sína. Slysið gerðist á örskotsstundu en höggið var svo þungt að Montenegro lét lífið skömmu síðar af meiðslum sínum.
Haft var eftir fjölskyldumeðlim að Montenegro hefði stundað líkamsrækt árum saman og reglulega skellt sér í bekkpressu. Hvatti viðkomandi líkamsræktarstöðvar til þess að læra af þessu slysi og hvetja viðskiptavini sína til þess að framkvæma ekki þess æfingu ef þeir væru einir á ferð.