
Maður á fimmtugsaldri sem grunaður er um að hafa spýtt í andlitið á fjölmörgum konum í New York-borg varð fyrir líkamsárás skömmu eftir að lögregla hafði sleppt honum úr haldi.
Hinn 45 ára gamli Anthony Caines var handtekinn á dögunum grunaður um að hafa í tvo sólarhringa, daganna 12 – 13. nóvember, spýtt í andlitið á fjölmörgum konum á almannafæri. Áttu konurnar það sameiginlegt að hafa allar verið hvítar á hörund og þekktu ekkert til Caines, sem á sakaferil að baki.
Árásirnar voru fyrirvaralausar og eins og gefur að skilja voru konurnar í miklu uppnámi eftir þær.
Caines var að lokum handtekinn og færður í skýrslutöku á lögreglustöð þar sem hann neitaði alfarið sök. Honum var síðar sleppt úr haldi gegn tryggingu. Skömmu síðar virðist sem almennir borgarar hafi tekið réttlætið í sínar hendur þegar myndband birtist þar sem tveir hettuklæddir einstaklingar gengu í skrokkinn á Caines.
Hótuðu svo árásarmennirnir Caines öllu illu ef hann myndi ekki láta af hegðun sinni.
Myndband af árásinni fór í talsverða dreifingu á samfélagsmiðlum en samkvæmt umfjöllun Daily Mail um málið var árásin ekki kærð.