
Myndefnið sem um ræðir sýndi árás á meinta fíkniefnasmyglara úr röðum Tren de Aragua-glæpasamtakanna í Venesúela. Fleiri sambærilegar árásir hafa verið gerðar á undanförnum vikum og hafa að minnsta kosti 87 manns látist.
Aðgerðir Bandaríkjahers eru mjög umdeildar þar sem umræddir einstaklingar eru hreinlega teknir af lífi án dóms og laga.
Myndefnið var sýnt á fundi í þinginu í vikunni og var flotaforinginn Frank M. Bradley meðal annars viðstaddur.
Að sögn þingmanna sem sáu upptökuna, og ræddu við Washington Post, mátti meðal annars sjá tvo meinta fíkniefnasmyglara reyna að rétta við bát sinn þegar Bandaríkjaher réðst á þá í annað sinn og drap þá. Alls létust ellefu manns í þessari aðgerð, en síðan þá hafa um 20 sambærilegar árásir verið framkvæmdar.
Demókratar lýstu áhyggjum eftir fundinn og sagði Jim Himes, þingmaður frá Connecticut, að upptakan væri ein sú „óþægilegasta“ sem hann hefur séð. Benti hann á að mennirnir sem lifðu fyrstu árásina af hefðu greinilega verið í neyð og ekki skapað ógn þegar seinni árásin var gerð. Sú árás var fyrirskipuð af Bradley.
Þingmenn sögðu Bradley einnig hafa upplýst að mennirnir hefðu ekki haft fjarskiptabúnað til að kalla eftir hjálp, samkvæmt CNN.
Repúblikanar hafa hins vegar varið aðgerðirnar með kjafti og klóm og sagði Tom Cotton, öldungadeildarþingmaður frá Arkansas, að árásirnar væru „algjörlega lögmætar og nauðsynlegar“ og að hann hefði sjálfur tekið sömu ákvörðun.
Lögfræðingar og að minnsta kosti einhverjir innan Bandaríkjahers velta þó fyrir sér hvort mennirnir, sem sátu hjálparlausir fastir við brak bátsins, hafi getað talist lögmæt skotmörk samkvæmt bandarískum og alþjóðlegum lögum. Pentagon hefur hingað til neitað að birta myndbandið opinberlega.