
Sænska ríkisstjórnin hefur lagt til að stjórnarskrá landsins verði breytt svo hægt sé að svipta leiðtoga glæpahópa ríkisborgararétti.
Þessi tillaga gengur lengra en sú sem lögð var fram af nefnd sem var skipuð þvert á flokka í janúar á þessu ári en þar var lagt til að heimild yrði að svipta einstaklinga, með tvöfaldan ríkisborgararétt, sænsku vegabréfi gerist það sekt um njósnir eða landráð.
„Ríkisstjórnin hefur ákveðið að ganga lengra en tillögur nefndarinnar kváðu á um til að gera það mögulegt að afturkalla ríkisborgararétt til dæmis í tilfellum leiðtoga glæpahópa sem eru sekir um að valda verulegu samfélagslegu tjóni,“ sagði Gunnar Strommer á blaðamannafundi í dag.
Svíþjóð hefur undanfarinn áratug glímt við faraldur ofbeldis vegna skipulagðrar brotastarfsemi. Frumvarp til stjórnarskrárbreytinga var lagt fram í dag en verði það samþykkt tekur breytingin þó ekki gildi strax því líkt og á Íslandi þarf að boða til nýrra kosninga og nýtt þing þarf svo að staðfesta breytinguna.
Þingkosningar fara fram í Svíþjóð á næsta ári.